Menning

Fríar ferðir milli safna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Bryndís Pjetursdóttir segir mörg söfn verða með dagskrá bæði fyrir börn og fullorðna á Safnanótt.
Bryndís Pjetursdóttir segir mörg söfn verða með dagskrá bæði fyrir börn og fullorðna á Safnanótt. mYND/Roman Gerasymenko
Ljósmyndir og ljóðaslamm, skjalasýning og skuggalegur ratleikur eru meðal þeirra 160 viðburða sem á dagskrá eru á Safnanótt annað kvöld milli klukkan 19 og miðnættis í öllum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Bryndís Pjetursdóttir, markaðsstjóri Höfuðborgarstofu, segir mikinn metnað hjá söfnunum að setja saman fjölbreytta og skemmtilega dagskrá.



Erfitt er fyrir Bryndísi að velja einstaka viðburði, þó nefnir hún að Tónlistarsafn Íslands í Kópavogi verði með sýninguna Dans á eftir sem fjallar um danshefð Íslendinga fram undir miðja síðustu öld. „Þar skapa Reynir Sigurðsson og félagar stríðsárastemningu,“ lofar hún. „Mörg söfn eru með dagskrá bæði fyrir fullorðna og börn, þar á meðal Þjóðminjasafnið, til dæmis verða þar lesnar álfasögur í Silfurhelli.“

Húsafell Ásgríms nefnist sýning í Ásgrímssafni á Bergstaðastræti 74.
Vísinda-Villi verður með fróðleik og léttar tilraunir í Bókasafni Seltjarnarness, kvöldvaka verður á baðstofuloftinu í Árbæ, í Norræna húsinu meðhöndlar Ásdís Sif Gunnarsdóttir myndbandsmiðilinn eins og tónlist og breytir húsinu í eitt allsherjar listaverk. Á Gljúfrasteini leikur mosfellska hljómsveitin Kaleo og á Bókasafni Hafnarfjarðar verða dægurlög í sparibúningi. Þess má geta að í safninu er líka köngulóarkompa og þar eru einungis notuð vasaljós til að rata um.



Söngfjelagið Góðir er með opna æfingu á íslenskum lögum í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg sem gestum býðst að taka þátt í og Kór Sjómannaskólans syngur vel valin lög á Sjóminjasafninu Víkinni.



Bryndís tekur fram að Safnanæturstrætó gangi frítt milli safna þannig að fólk geti lagt bílunum og bendir líka á að dagskrá Safnanætur sé öll á vefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×