Innlent

Úttektin staðfesti að ráðuneytið hafi farið að lögum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. VISIR/GVA
„Forsætisráðuneytið fagnar úttekt þeirri sem Ríkisendurskoðun birtir í dag um úthlutanir ráðuneytisins á þremur safnliðum vegna fjárlagaáranna 2012-14. Úttektin staðfestir að forsætisráðuneytið fór að lögum við úthlutun styrkja bæði í tíð fyrri ríkisstjórnar, þegar ráðherranefnd um atvinnumál var starfandi, og þegar eftirstöðvum þeirrar fjárheimildar sem ráðherranefndin hafði áður haft aðkomu að var úthlutað í desember 2013.“ Þetta segir í tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér í dag í kjölfar gagnrýni Ríkisendurskoðunar á úthlutun styrkja til atvinnuskapandi minjaverndarverkefna undir lok síðasta árs.

Þá taldi Ríkisendurskoðun að ráðuneytið hefði átt að leita nýrrar heimildar Alþingis til að ráðstafa ónýttum fjárheimildum ráðuneytisins eftir að ráðherranefnd um atvinnumál hafði verið lögð niður.

„Sú skoðun, sem ráðuneytið hefur alfarið lýst sig  ósammála, breytir ekki þeirri staðreynd að um gildar fjárheimildir var að ræða sem rétt og eðlilegt þótti að nýta,“ segir í tilkynningunni og bætt er við að ráðuneytið taki athugasemdir og ábendingar Ríkisendurskoðunar til athugunar. „En áréttar fyrri skýringar sem réttlæta að fullu þá málsmeðferð sem viðhöfð var við veitingu styrkja.“

Ríkisendurskoðun hvatti ráðuneytið til að setja sér skýrar verklagsreglur um styrkveitingar. Þá sé mikilvægt að ráðuneytið setji beiðnir sínar til Alþingis um fjárveitingar (fjárlagabeiðnir) ávallt fram á skýran og lýsandi hátt. Enn fremur sé mikilvægt að skýra hvar ábyrgð á verkefnum „græna hagkerfisins“ liggi en það er óljóst að mati Ríkisendurskoðunar. Þetta kom fram á vef Ríkisendurskoðunar.

Forsætisráðuneytið svarar þessum þremur ábendingum í tilkynningunni sinni en undirstrikar að Ríkisendurskoðun telji að forsætisráðuneytið hafi beint umsjón með styrkveitingum í faglegt ferli með því að fela Minjastofnun Íslands að annast samningagerð vegna styrkjanna, greiðslu þeirra og eftirfylgni með þeim verkefnum sem hlutu styrk.

Tilkynninguna í heild sinni má nálgast hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×