Erlent

Bretar farnir að hóta Skotum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
David Cameron ræddi um sjálfstæðisáform Skotlands nú í vikunni.
David Cameron ræddi um sjálfstæðisáform Skotlands nú í vikunni. Nordicphotos/AFP
Breska dagblaðið The Guardian fullyrðir að stórskotalið breskra ráðamanna sé nú að undirbúa hótanir á hendur Skotum, sem eigi að fæla þá frá því að samþykkja sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu í haust.

Hótanirnar snúist ekki síst um að gera að engu vonir Skota um að geta haldið breska pundinu, fari svo að sjálfstæði Skotlands verði að veruleika.

Skoðanakannanir benda til þess að afstaða margar Skota muni ráðast af því hvaða efnahagslegu áhrif sjálfstæði muni hafa. Þessar hótanir beinast því beint að því, sem helst gæti ráðið úrslitum í kosningunum.

The Guardian skýrir frá því að á blaðamannafundi í gær hafi David Cameron forsætisráðherra gefið í skyn að fjármálaráðherrann, George Osborne, muni nú síðar í vikunni verða fyrstur til að kynna þessa herferð gegn sjálfstæðisáformum Skota.

„Fjármálaráðherrann mun ræða þetta seinna í vikunni,” sagði Cameron á blaðamannafundinum, og bætti við: „Ég held að það muni verða mjög erfitt að réttlæta gjaldmiðilsbandalag eftir að sjálfstæði væri fengið.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×