Stjórn Strætó bs. var ekki upplýst um kaup á Mercedes Benz til handa Reyni Jónssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins.
Bíllinn var keyptur 20. ágúst en skráður á Strætó 2. október. DV hefur fullyrt að verðmæti bílsins sé um 10 milljónir króna. „Ráðningarsamningur hans gerir ráð fyrir því að hann hafi afnot af bíl sem sé í eigu fyrirtækisins,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og stjórnarformaður Strætó. „Í ráðningarsamningnum er ekkert tilgreint um gerð bílsins,“ segir hún aðspurð um það hvort eðlilegt sé að hann sé þetta dýr. „Ég hef ekki haft aðkomu að þessum nýju kaupum og þekki ekki til þeirra,“ segir hún.
„Ég á eftir að kynna mér þetta betur og ræða þetta í stjórninni,“ segir Bryndís. Stjórnarfundur verður haldinn á miðvikudaginn. „Við erum að fara að ræða ráðningarsamninginn og ég hef fengið beiðni frá stjórnarmönnum um að fá einhverjar upplýsingar um þetta,“ segir Bryndís.
Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík og stjórnarmaður í Strætó, segist ekki hafa fengið upplýsingar um málið aðrar en þær sem hafa komið fram í fjölmiðlum. Hún muni ekki tjá sig fyrr en hún fái upplýsingar.
Innlent