Innlent

Réðst á dyravörð á English pub

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Rúmlega fertugur karlmaður var í Hæstarétti Íslands í dag dæmdur í fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á dyravörð á English Pub við Austurstræti 12 í Reykjavík í ágúst 2012. Honum er jafnframt gert að greiða allan áfrýjunarkostnað og málsvarnarlaun verjanda síns, samtals 548.273 krónur og allan sakarkostnað, samtals 28.800 krónur.

Manninum er gefið að sök að hafa slegið dyravörðinn með hnefahöggi í andlitið en sá sem fyrir árásinni varð hlaut sár og mar á kjálka, djúpt mar á rasskinn, tognun á ökkla og brotna tönn.

Málið var tekið fyrir í héraði í nóvember 2013. Þar neitaði ákærði sök og kvaðst hafa reynt að komst inn á skemmtistaðinn með tveimur félögum sínum og syni en dyravörðurinn hefði ekki viljað hleypa þeim inn. Þeir hefðu þá farið yfir á næsta skemmtistað. Kvaðst hann hafa verið ölvaður en engu að síður munað eftir öllu. 

Með framburði mannsins og annarra vitna, taldi dómurinn sannað að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að hann hefði gerst sekur um líkamsárás og brot hans því rétt fært til refsiákvæðis með hliðsjón af sakaferli hans. Maðurinn er þegar á skilorði fyrir samskonar brot og þótti því ekki tilefni til að skilorðsbinda dóminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×