Menning

Litlir hlutir geta snúið öllu á haus

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Kristinn e. Hrafnsson Vendipunktar eru viðfangsefni sýningarinnar.
Kristinn e. Hrafnsson Vendipunktar eru viðfangsefni sýningarinnar. Vísir/Pjetur
„Titill sýningarinnar vísar í eitt verk, en samt eru vendipunktar eiginlegt viðfangsefni sýningarinnar,“ segir Kristinn E. Hrafnsson myndlistarmaður en sýning með nýjum verkum hans verður opnuð í dag í Hverfisgalleríi klukkan fimm.

„Með nýju verkunum er ég að velta fyrir mér sjónarhornum sem við höfum á heiminn og hvernig þau geta skyndilega breyst við lítið inngrip – það þarf ekki mikið til að þau taki breytingum,“ bætir Kristinn við.

„Það er eitthvað sem hefur áhrif á það hvernig við sjáum hlutina og hvaða stefnu við tökum í lífinu. Hlutir eins og lítil snerting eða lítil viðbrögð geta snúið öllu á haus og það eru hugsanlega vendipunktarnir,“ útskýrir Kristinn, en sýningin er einnig unnin út frá siglingarfræði og stjörnufræði og ólíkum sjónarhornum á heiminn.

„Þetta eru í grunninn mjög einfaldar hugmyndir, en ég leitast við að varpa einhverju ljósi á það hvernig við, eða að minnsta kosti ég, lítum á heiminn, hvort við horfum á hann innan frá eða utan frá og hvað það er sem ræður því sjónarhorni. Þetta er um það að horfa á heiminn hreyfast,“ segir Kristinn að lokum.

Sýningin stendur til 29. mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.