Lífið

Datt dúfnaveisla í hug

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 Helga kveðst búa í dósagerðinni. "Það er voða kósí.“
Helga kveðst búa í dósagerðinni. "Það er voða kósí.“ Fréttablaðið/Anton
„Ég get víst ekki neitað því að eiga stórafmæli. Er bara glöð að hafa náð þessum aldri og Guði þakklát fyrir það,“ segir Helga Stephensen glaðlega þegar hringt er í hana vegna sjötugsafmælisins í dag.



„Mér datt reyndar í hug að halda dúfnaveislu og bjóða símaskránni en hætti við,“ segir hún hlæjandi og kveðst ætla að halda upp á afmælið með sínum krökkum.

„Einn sonur minn ætlar að bjóða mér til Þingvalla, við ætlum að fá nasasjón af haustinu þar, svo ætlum við að borða uppi á Kjalarnesi hjá öðrum syni mínum sem þar býr. Ég á sko þrjá stráka, sætar og góðar tengdadætur og tíu barnabörn. Við erum fyrirferðarmikil fjölskylda, hávær, kát og stór í okkur,“ segir hún kampakát.



Stórfjölskyldan „Við erum fyrirferðarmikil fjölskylda, hávær, kát og stór í okkur,“ segir Helga.Mynd/Úr einkasafni
Bætir því við að hún hafi átt hund í tíu ár.

„Hann hefur drifið mig út að labba og verið mér góður stuðningur eins og dýr geta verið.“

Helga er dóttir leikarans Þorsteins Ö. Stephensen og Dórótheu Breiðfjörð og á þrjú systkini á lífi, Guðrúnu leikkonu og Kristján og Stefán, tónlistarmenn sem báðir spiluðu með Sinfóníuhljómsveitinni.

Helga er kennari að mennt, lék með Leikfélagi Reykjavíkur um árabil, starfaði lengi í tónlistardeild Ríkisútvarpsins og var hvíslari í Þjóðleikhúsinu í nokkur ár.

Hún er fædd og uppalin á Laufásvegi 4 og kveðst komin aftur heim.

„Afi var einn fyrsti blikksmiður landsins og átti litla viðbyggingu við stóra húsið á Laufásvegi 4, þar bý ég núna – í dósagerðinni! Það er voða kósí.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×