Erlent

17 ára stúlka ein þeirra sem lést

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ein þeirra sem lét lífið í árekstrinum í Sokna í gærkvöldi var sautján ára stúlka. Þessu greina norskir miðlar frá. Auk hennar létu tveir aðrir lífið, tveir karlmenn fæddir 1963 og 1944. Tveir liggja þungt haldnir á sjúkrahúsi en fjórir aðrir sem slösuðust eru ekki í alvarlegu ástandi.

Þetta staðfestir Arne Erik Hakonsen, lögreglumaður í Ringeríki í Noregi í samtali við fréttamann Vísis. Hokonsen ítrekaði að íslenski ökumaður flutningabílsins hafi ekki verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna við akstur sinn. Aðstæður hafi verið gífurlega erfiðar og mikil hálka á veginum. Flutningabíllinn var þó á góðum vetrardrekkjum.

„Skýrsla var tekin af manninum, ökuskírteini hans tekið en hann er ekki í varðhaldi“ sagði Erik aðspurður um stöðu Íslendingsins. Hakonsen staðfesti einnig að Íslendingurinn væri búsettur í Noregi. 

Fyrr í dag var greint frá því á vef NRK að ökuskírteinið hefði verið tekið af manninum venju samkvæmt vegna alvarleika slyssins. Með Íslendingnum í flutningbílnum var annar maður sem einnig var af erlendu bergi brotinn.

Rútan var á áætlunarleið á milli Óslóar og Lærdal. Flutningabílarnir eru báðir í eigu norsks fyrirtækis.


Tengdar fréttir

Þrír létust í árekstri í Noregi - Íslendingur grunaður um gáleysislegan akstur

Þrír létust í hörðum árekstri rútu og flutningabíls í Sokna í Noregi seint í gærkvöldi. Ellefu er slasaðir en ökumaður flutningabílsins er í norskum miðlum sagður vera íslendingur, fæddur árið 1954. Hann er grunaður um gáleysilegan akstur og hefur verið yfirheyrður af lögreglu, að því er greint er frá á vefsíðu norska ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×