Innlent

Magnús Geir næsti útvarpsstjóri samkvæmt Betsson

Jakob Bjarnar skrifar
Á þessa sex má veðja á veðmálasíðu Betsson.
Á þessa sex má veðja á veðmálasíðu Betsson.
Veðmálafyrirtækið Betsson setti í gær upp veðmál, hver verður næsti útvarpsstjóri, og stuðullinn á Magnús Geir Þórðarson hrynur niður.

Vísir greindi frá því í gær að nú geta menn veðjað á það hver verður næsti útvarpsstjóri á veðmálasíðu Betsson. Sex eru nefndir til sögunnar og þótti Betsson-mönnum Magnús Geir Þórðarson líklegastur til að hreppa hnossið, en gengið verður frá ráðningu fyrir mánaðarlok, að sögn Ingva Hrafns Óskarssonar formanns stjórnar RÚV ohf. Magnús Geir var upphaflega með stuðulinn 2,23 sem þýðir einfaldlega það að leggi menn þúsund krónur á Magnús, hann verður fyrir valinu, þá fá menn greitt 2,230 krónur.

Stuðullinn breytist eftir því hvernig menn staðsetja veðmál sín og nú kemur á daginn að þeir sem taka þátt í þessu veðmáli veðja upp til hópa á að Magnús Geir verði næsti útvarpsstjóri. Stuðullinn á hann er nú kominn niður í 1,23. Þetta þýðir með öðrum orðum að sá sem vill leggja þúsund krónur á hann, og vinnur veðmálið, fær til baka 1,230 krónur.

Aðrir þykja ekki jafn líklegir. Bjarni Guðmundsson, sem nú er tímabundið útvarpsstjóri, er kominn í 3,70 úr 2,5, Salvör Nordal er komin í 4,60 úr 3,4 upphaflega, Guðjón Petersen er nú í 6 en var með stuðulinn 4, Stefán Jón Hafstein er kominn í 8,75 úr 6 og Ólína Þorvarðardóttir er komin í stuðulinn 10,50 úr 8. Þetta þýðir að þeir sem veðja á Betsson telja afar ólíklegt að hún verði fyrir valinu, sá sem leggur þúsund krónur undir á að hún verði næsti útvarpsstjóri, og ef svo fer að stjórn RÚV ohf ráði hana til starfans, fær sá hinn sami til baka 10,500 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×