Menning

Fengu fyrstu verðlaun fyrir hugmyndir sínar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Pálína skólastjóri og drengirnir Ísak Einarsson, Styrmir Einarsson, Stefán Freyr Jónsson og Gissur Gunnarsson.
Pálína skólastjóri og drengirnir Ísak Einarsson, Styrmir Einarsson, Stefán Freyr Jónsson og Gissur Gunnarsson. Mynd/Sigurður Gunnarsson
„Við fengum að heyra það að okkar framlag hefði verið skemmtilegt,“ segir Pálína Þorsteinsdóttir, skólastjóri Grunnskólans í Hofgarði í Öræfum, en skólinn hlaut fyrstu verðlaun í verkefni Landsbyggðarvina sem gekk út á hugmyndavinnu til styrktar heimabyggð.

Yfirskrift verkefnisins er Heimabyggðin mín.

Fjórir drengir í skólanum tóku þátt og skrifuðu ritgerðir um kosti sinnar sveitar og hvað orðið gæti henni til frekari framdráttar.

Þeir tóku við bókaverðlaunum úr hendi Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um síðustu helgi á fjölmennri samkomu Landsbyggðarvina og voru að vonum kampakátir.

Ásgerður Gylfadóttir, bæjarstjóri Hornafjarðar, brunaði líka í bæinn til að vera viðstödd.

„Okkar menn uppskera fyrir að leggja sig fram og hafa haft úthald í að ljúka verkefninu,“ segir Pálína. „Nú eigum við eftir að vinna það enn betur og sýna það dómnefnd sem fer um landið og skoðar útfærsluna hjá hverjum og einum skóla. Þá getur einhver allt annar skóli orðið sigurvegari.“

Þetta er í annað sinn sem Grunnskólinn í Hofgarði tekur þátt í verkefninu Heimabyggðin mín hjá Landsbyggðarvinum. Hitt var skólaárið 2007-8. Þá vann hann einnig til verðlauna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×