Erlent

Meðlimur Bleiku pardusanna handtekinn á Spáni

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ilinic var handtekin fyrir utan hótel í úthverfi Madrid.
Ilinic var handtekin fyrir utan hótel í úthverfi Madrid. vísir/getty
Lögreglan á Spáni hefur handtekið mann sem grunaður er um aðild að stórfelldum gimsteinaþjófnaði í Dúbaí árið 2007.

Maðurinn, Borko Ilinic, er talinn vera hluti af Bleiku pardusunum, alræmdum hópi gimsteinaþjófa sem sagður er hafa stolið gimsteinum að andvirði meira en 51 milljarðs króna frá árinu 1999. Hópurinn er orðaður við meira en 340 rán í 35 löndum, og höfðu þjófarnir rúmlega 11 milljarða króna upp úr krafsinu í ráninu í Dúbaí.

Ilinic var handtekin fyrir utan hótel í úthverfi Madrid en hann var með bosnískt vegabréf í fórum sínum. Lögregla fullyrðir þó að hann sé frá Serbíu.

Bleiku pardusarnir draga nafn sitt af samnefndum kvikmyndum með grínistanum Peter Sellers. Árið 1993 fann lögregla í Lundúnum demantshring í fórum hópsins sem falinn hafði verið í dollu af andlitskremi. Sambærilegt atriði má finna í kvikmyndinni The Return of the Pink Panther frá árinu 1975.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×