Innlent

Samfélagið sem ákveður að útskúfa fólki

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Pawel segir það vera samfélagið sem ákveði að útskúfa fólki líkt og manninum í Grindavík.
Pawel segir það vera samfélagið sem ákveði að útskúfa fólki líkt og manninum í Grindavík. vísir/valli
Pistlahöfundurinn Pawel Bartoszek fjallar um mál mannsins í Grindavík sem tók af sér nektarmyndir sem rötuðu í fjölmiðla í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Greinin ber nafnið Oj, ógeðslegt og líkir Pawel viðbrögðum almennings við Rússland Pútíns.

„Hópur fólks sem vill varpa ábyrgð á því sem börn þeirra gera, á netinu, sem annars staðar, yfir á aðra,“ skrifar Pawel. „Þetta stjórnlynda fólk mun, í þessu samhengi, aldrei kalla sig annað en „foreldra“ því það gefur þá fölsku mynd að fólkið eigi einhverra hagsmuna að gæta af því hvernig eitthvert allt annað fólk hagar sér. Foreldrar eiga nefnilega börn. Vilja ekki allir passa upp á börnin?“

Pawel segir fólk velja sjálft hvað það skoðar á netinu. Þeir sem vilji stýra því hvað börn þeirra skoði þar verði að gjöra svo vel að vinna þá vinnu sjálft en ekki ætlast til að allir aðrir lúti þeirra óskum. „Sumir óttast typpamyndir. Ég játa að ég er mun hræddari við fólk sem vill banna og refsa með teygðum vísunum til velferðar barna.“

Brennimerkingin af mannavöldum

Hann segir það vera samfélagið sem ákveði að útskúfa fólki líkt og manninum í Grindavík og nefnir Pawel til samanburðar erlend dæmi af fólki sem misst hefur vinnuna í barnaskóla þegar upp hefur komist að það hafi áður leikið í klámmynd. Brennimerkingin sé ekki náttúruleg heldur af mannavöldum.

„Nú má auðvitað hæðast að því að einhver vilji standa vörð um rétt fólks til að taka myndir af sér með standpínu án þess að fá yfir sig yfirheyrslu fjölmiðla, rannsókn lögreglu og útskúfun samfélagsins,“ skrifar Pawel og segir málið snúast um frjálslyndi. „Frjálslyndi snýst um að umbera einmitt það sem einhverjum finnst skrýtið eða jafnvel ógeðslegt.“

Grein Pawels má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

„Síðustu dagar hafa verið afar erfiðir“

„Fólk ætti að líta sér nær,“ segir barnsmóðir manns sem tók af sér nektarmyndir sem fóru í dreifingu meðal unglinga í Grindavík, en hún hefur orðið fyrir miklu aðkasti vegna myndanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×