Lífið

Syndir í sólarhring: Þakklátur fyrir að vera á lífi

Bjarki Ármannsson skrifar
Allur ágóði af sundinu rennur til endurbóta á aðstöðu fyrir foreldra á Landspítalanum en Guðmundur dvaldi þar sjálfur lengi við fæðingu dóttur sinnar.
Allur ágóði af sundinu rennur til endurbóta á aðstöðu fyrir foreldra á Landspítalanum en Guðmundur dvaldi þar sjálfur lengi við fæðingu dóttur sinnar. Mynd/Aðsendar
Guðmundur Hafþórsson, sundkappi og einkaþjálfari, ætlar að þreyta sólarhrings áheitasund í sumar til að styrkja Líf, styrktarfélag Kvennadeildar Landspítalans. Allur ágóði af sundinu rennur til endurbóta á aðstöðu fyrir foreldra sem þurfa að dvelja langdvölum á Landspítalanum vegna veikinda barna sinna, en Guðmundur og kona hans upplifðu það sjálf í janúar þegar dóttir þeirra fæddist með aukarás í hjarta. Áheitasöfnun fer af stað á morgun og af því tilefni tók fréttastofa Guðmund tali.

„Auðvitað stækkar þetta með hverjum deginum,“ segir Guðmundur aðspurður hvort hann sé farinn að kvíða stóra deginum. „Maður hefur heyrt ýmsar draugasögur um svona sund. Ég hef helst áhyggjur af andlega hlutanum, að láta mér ekki leiðast.“

Guðmundur var lengi vel ofarlega á lista yfir bestu sundmenn landsins, þó hann hafi aldrei orðið atvinnumaður.

„Örn Arnarson var náttúrulega númer eitt í baksundi og ég var númer tvö,” segir hann. „Ég var lengi í þessum pakka og það var hátt fjall að klífa, að elta hann. En ég tel mig hafa verið nokkuð góðan.”

Hann þurfti þó að endurmeta eigin líkamlega getu eftir að hann höfuðkúpubrotnaði í líkamsáras á nýársnótt 2011.

„Ég var ekki að keppa á þeim tíma, þarna var ég orðinn þjálfari,“ segir hann. „Á þessum tímapunkti bjó ég í Kanada og var að þjálfa þar og var bara heima í jólafríi.

Og ég lendi í þessu höggi og höfuðkúpubrotna. Þetta var bara eitt högg í andlitið, alveg tilefnislaus árás og ég skall í jörðina og höfuðkúpubrotnaði. Það verður blæðing á milli heila og höfuðkúpu og þarna á tímabili var ég í lífshættu.“

Nýtur þess að vera á lífi

Guðmundur þurfti að fara í aðgerð þar sem tappað var af blóði frá heila. Hann var á spítalanum í samtals tíu daga. Hann útskrifaðist af heila- og taugadeild þann 12. janúar en var þá langt frá því að vera búinn að ná sér að fullu.

„Þarna tók við endurhæfing, að vinna mig upp aftur. Læknar sögðu mér að ég gæti ekki litið á mig sem afreksmann í þessari endurhæfingu, ég þyrfti að fara alveg til baka og líta á sjálfan mig bara sem byrjanda.“

Fyrstu mánuðirnir eftir slysið einkenndust af mörgum óvæntum og síður skemmtilegum uppgötvunum fyrir fyrrum afreksmanninn.

„Það kom svona smá sjokk í febrúar, ég fór þá í sund með fjölskyldunni og gat ekki synt tvær ferðir. Þá var ég bara búinn á því. Þá tók við þessi endurhæfing, sem fólst í rauninni í því að ganga í heilan mánuð.

Ég fór aftur til Kanada í lok febrúar og þá hélt ég þessu áfram sjálfur, gekk einn og hálfan kílómeter til að byrja með og var þá með púls upp á 190 og bara búinn á því. Síðan jók maður æfingarnar, ég byrjaði á því í apríl að skokka örlítið inn á milli og gera æfingar heima fyrir. Í ágúst var ég byrjaður að skokka hringinn alveg.“

Guðmundur er nú kominn í prýðilegt form á ný, en segist enn finna reglulega fyrir áhrifum slyssins á líkamann.

„Ég fékk hausverki og ég fæ tak í bakið reglulega. Þetta er eitthvað sem ég lifi við og maður tæklar bara hvern dag í einu. Þegar maður er heill heilsu, þá er maður ánægður og núna fyrir sundið kemur það fyrir að ég fæ tak í bakið. Þá bara syndi ég ekkert í tvo, þrjá daga svo heldur maður áfram. Þannig að þetta er bara eitthvað sem ég lifi við og nýt þess bara að vera á lífi.“

Syndir fyrir Landspítalann

Það var svo í fyrra sem Guðmundur ákvað að setja upp lista yfir þau markmið sem hann ætlaði sér að ná fyrir 35 ára afmælið sitt árið 2015.  Á þeim lista, ásamt því að fara í fallhlífarstökk og taka þátt í Ólýmpískri þríþraut, var meðal annars að finna 24 klukkustunda sundið.

„Þetta byrjaði bara sem ég sjálfur,“ segir hann um sundævintýrið. „Síðan þegar þetta fréttist út í gegnum Facebook-síðu sem ég setti upp þá fór ég að fá fyrirspurnir frá fólki: Hvernig get ég verið með? Hvað get ég gert?“

Hann ákvað þá að gera sundið að áheitasundi sem allir gætu tekið þátt í með honum til þess að afla fjár fyrir verðugt málefni. Guðmundur gaf sig á tal við Landspítalann og spurði hvað það væri helst sem vantaði á stofnunina.

„Þeir sögðu mér að foreldraaðstaðan væri eitt það helsta sem mætti laga og bentu mér á að tala við Líf,“ segir hann.

Þetta var í janúar á þessu ári. Seinna í sama mánuði fékk Guðmundur að kynnast aðstöðunni á vökudeild af eigin reynslu.

„Ég og konan, við eignuðumst barn núna 19. janúar. Þá erum við í tíu daga inni með stelpuna okkar. Hún er með aukarás í hjartanu. Þá kynntumst við því af eigin raun hvað þetta er frábær stofnun og hvað það er mikilvægt að fjölskyldunni líði vel.“

Til að vekja athygli á áheitasundinu hefur Guðmundur skorað á frambjóðendur í komandi sveitastjórnarkosningum í Garðabæ í boðsundskeppni á morgun.

„Mér skilst að öll framboðin hafi sýnt því áhuga að mæta,“ segir Guðmundur. „Það er svona spurning með tímann, upp á vinnuna og svona, en það tóku allir vel í þetta og ég held að flest framboðin verði þarna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×