Menning

Mikilfenglegasta sinfónía Mahlers kynnt

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Árni Heiðar hefur tvisvar farið á flutning á þriðju sinfóníu Mahlers og segir þá tónleika alltaf sitja í minningunni.
Árni Heiðar hefur tvisvar farið á flutning á þriðju sinfóníu Mahlers og segir þá tónleika alltaf sitja í minningunni. Úr einkasafni
„Tónlist Gustavs Mahlers spannar allan skalann og sveiflar manni öfganna á milli. Þar getur ýmislegt gerst og framvindan er ekki alltaf eins og maður býst við,“ segir Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur.

Hann ætlar að leiða hlustendur um heim þriðju sinfóníu Mahlers í Kaldalóni í Hörpu í kvöld klukkan 20 og kveðst ekki vera í vandræðum með að finna frásagnarverða þætti í henni því af mörgu sé að taka.

Vinafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands stendur fyrir kynningunni, en verkið er á dagskrá hennar þann 23. maí, á Listahátíð í Reykjavík.

Sinfónían er ein sú mikilfenglegasta sem Mahler samdi, en hún heyrist sjaldan á tónleikum og hefur aðeins einu sinni áður verið flutt á Íslandi.

„Tónlistin er gífurlega flott, með mjög glæsilegum hápunktum en viðkvæmari köflum á milli og nýtur sín auðvitað hvergi betur en í lifandi flutningi í góðum hljómburði.

Það er líka margt fólk sem tekur þátt, risastór hljómsveit, bandaríska mezzósópransöngkonan Jamie Barton, sem er eitt heitasta nafnið í dag, og tveir kórar; kvennakór og barnakór sem báðir eru undir stjórn Möggu Pálma.

Svo er Osmo Vänskä að stjórna og hann var nú að vinna Grammy-verðlaun fyrr á þessu ári.  Þetta er stórviðburður enda er öllu tjaldað til.“

Aðgangur að kynningunni er ókeypis og allir eru velkomnir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×