Innlent

Síðu IS lokað af Advania

Bjarki Ármannsson skrifar
Stuðningsmenn samtakanna Íslamskt ríki í Írak.
Stuðningsmenn samtakanna Íslamskt ríki í Írak. Vísir/AP
Vefhýsirinn Advania hefur lokað fyrir vefsíðuna khilafah.is, fréttasíðu öfgasamtakanna Íslamskt ríki, sem skráð var á Íslandi. Fyrirtækið segir að hýsing síðunnar hafi brotið í bága við viðskiptaskilmála Thor Data Center og því hafi henni verið lokað.

Vefurinn var skráður á Íslandi í september en Jens Pétur Jensen framkvæmdastjóri hjá ISNIC, sem sér um lénskráningar hér á landi, segir vefinn að öllum líkindum hýstan í Þýskalandi. Á síðunni má sjá fréttir, myndir og myndbönd af starfi Íslamska ríkisins sem hefur sölsað undir sig stór landsvæði í Írak og í Sýrlandi með miklu ofbeldi og þjóðernishreinsunum.

Að sögn talsmanna Advania hýstu samtökin síðuna á Íslandi í gegnum þriðja aðila. Fyritækið hafi látið þann aðila vita í dag af innihaldi síðunnar, sem hafi komið flatt upp á hann. Strax hafi verið ráðist í að loka fyrir síðuna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra var upplýstur um málið í dag og er hafin rannsókn innan ráðuneytisins hvort hægt verði að beita aðgerðum af hálfu hins opinbera í málinu. Í hádegisfréttum Bylgjunnar sagði Jens Pétur að það kæmi sér ekki á óvart að hryðjuverkasamtökin skildu kjósa íslenska lénsskráningu enda IS einkennisstafir samtakanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×