Erlent

Fallast ekki á sakaruppgjöf í skiptum fyrir opinberar byggingar

Elimar Hauksson skrifar
Mótmælendur hafa meðal annars dómsmálaráðuneyti landsins á sínu valdi.
Mótmælendur hafa meðal annars dómsmálaráðuneyti landsins á sínu valdi. Mynd/afp
Stjórnvöld í Úkraínu hafa boðið mótmælendum sakaruppgjöf fyrir þá sem voru handteknir í óeirðunum sem hafa geisað í landinu síðustu vikur. Stjórnarandstæðingar telja skilyrði um að láta af hendi opinberar byggingar sem þeir hafa á sínu valdi hins vegar óásættanleg.

Lagafrumvarpið er hluti af viðleitni forsetans, Viktor Yanukovych, til að koma til móts við mótmælendur eftir viku af hörðum átökum milli lögreglu og mótmælenda. Forsætisráðherrann, Mykola Azarov, hefur sagt af sér og lög sem bönnuðu mótmæli í landinu voru afturkölluð. Mótmælendur telja þessar aðgerðir hins vegar ekki ganga nógu langt og krefjast þess að Yanukovych segi af sér og boðað verði til kosninga án tafar.



Tillögur um sakaruppgjöf hafa verið lagðar fram í þingingu en þær eru háðar því að mótmælendur láti opinberar byggingar af hendi og hætti átökum við lögreglu.



Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Arseniy Yasenyuk, sagði að mótmælendur myndu ekki fallast á að yfirgefa strætin í skiptum fyrir sakaruppgjöf og vill að boðað verði tafarlaust til kosninga. Stjórnvöld buðu Yasenyuk forsætisráðherrastól landsins í síðustu viku en hann hafnaði því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×