Erlent

Omega 3 bætir svefn barna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Samkvæmt rannsókn sem gerð var við Oxford háskóla getur það bætt svefn barna að borða olíuríkan fisk eða Omega-3 bætiefni. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að hærra magn Omega-3 fitusýru sem finnst meðal annars í fiskmeti hafi beina tengingu við betri svefn. Financial Express greinir frá þessu.

Rannsóknin fór þannig fram að kannað var hvort dagleg inntaka á Omega 3 myndu bæta svefn 362 barna. Foreldrar svöruðu spurningakönnun áður en tilraunin hófst og samkvæmt henni áttu fjögur af hverjum tíu börnum við svefnvandamál að stríða. Rannsakendur settu mælitæki á úlnlið þeirra 43 barna sem voru sögð sofa illa í þeim tilgangi að fylgjast með hreyfingum þeirra í svefni.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að þau börn sem fengu Omega 3 bætiefni á hverjum degi sváfu að meðaltali um klukkutíma lengur og vöknuðu sjö skiptum sjaldnar en börn sem gefin var lyfleysa.

Rannsóknir höfðu áður sýnt samhengi milli svefnvandamála og Omega 3 og Omega 6 fitusýru hjá ungabörnum sem og börnum og fullorðnum sem eiga við hegðunar og lærdómsvandamál að stríða. Þetta er hinsvegar í fyrsta sinn sem slík rannsókn er gerð á heilbrigðum börnum.

Í upphafi rannsóknarinnar gáfu svör foreldrar 40% barnanna það í skyn að þau ættu við stöðug svefnvandamál að stríða, svosem eins og vandamál við að koma börnum í rúmið, kvíða við að fara að sofa ásamt því að vakna oft á hverri nóttu. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að með því að hækka magn Omega 3 fitusýru í blóði yrðu svefn og svefnvenjur barnanna mun betri.

Aðalhöfundur skýrslunnar,  Paul Montgomery  hjá Oxford Háskóla, sagði að það væri áhyggjuefni að fjögur af hverjum tíu börnum eigi við svefnvandamál að stríða, en að hin ýmsu efni sem verða til í líkamanum vegna Omega 3 og Omega 6 fitusýru hjálpi til við ná tökum á svefnvandamálum hafa löngum verið þekkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×