Innlent

Hræðileg tilfinning að hafa ekki efni á lyfjunum

Hrund Þórsdóttir skrifar
Í fréttum Stöðvar 2 í gær var rætt við Halldóru Víðisdóttur, sem missti systur sína úr krabbameini. Halldóra er formaður Krafts og ætlar félagið að stofna sjóð sem mun styðja fjárhagslega við unga krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra. „Við erum með mörg dæmi hjá Krafti og Krabbameinsfélaginu þar sem við sjáum að fólk lendir oft í mjög alvarlegri stöðu fjárhagslega þegar það greinist með krabbamein,“ segir Halldóra.

Sem dæmi má nefna 35 ára konu sem lokið hefur krabbameinsmeðferð en er í eftirfylgni og greiddi nær þrjátíu þúsund krónur vegna hennar fyrstu tvo mánuði ársins. Hún hefur ekki getað unnið og þarf að sleppa úrræðum sem í boði eru vegna kostnaðar. Hún sér fram á svipaðar greiðslur áfram.

Bjarki Már Sigvaldason þekkir þetta af eigin raun. 25 ára greindist hann með ristilkrabbamein í árslok 2012 og síðar meinvörp í lungum og er hann á lokastigi krabbameins. Frá byrjun síðasta árs hefur beinn kostnaður hans vegna sjúkdómsins verið um átta hundruð þúsund krónur og er það fyrir utan óbeinan kostnað við til dæmis ferðir og breytt mataræði. „Þar við bætist svo auðvitað tekjumissir hjá mér og maka mínum,“ segir Bjarki.

Hann og kærasta hans, Ástrós Rut Sigurðardóttir, leigðu íbúð tvö saman en réðu ekki lengur við það vegna veikinda hans. Úr varð að þau og nánasta fjölskylda Bjarka sögðu upp íbúðum sínum og búa nú saman. Þá hefur vinnuveitandi Bjarka reynst vel auk þess sem fótboltafélagar hans í HK söfnuðu hárri upphæð. „Ég er búnn að fá mikla hjálp og án hennar hefði ég aldrei komist í gegnum þetta,“ segir Bjarki.

Þau Ástrós eiga ekki börn og Bjarki getur ekki ímyndað sér hvernig til dæmis einstæðir foreldrar geti tekist á við kostnaðinn sem fylgi krabbameini. „Það er auðvitað mikið álag að vera veikur og fara í gegnum þetta, en að þurfa svo að takast á við fjárhagsvandræði í ofanálag er mjög erfitt,“ segir hann og Ástrós tekur undir.

„Ég man bara eftir því þegar við vorum á spítalanum og heimabankinn var bara rauður, það var allt rautt þar því ég gat ekkert unnið,“ segir hún. „Það er auðvitað mjög óþægilegt og hræðileg tilfinning að vita til þess að maður hefur ekki einu sinni efni á lyfjunum. Án þessarar aðstoðar sem við fengum frá HK og fleirum hefði ég farið á hausinn. Ég hefði samt gefið allt til að geta bara verið hjá Bjarka."

Nánari upplýsingar fást á heimasíðu Krafts og er reikningsnúmer sjóðsins 327-26-112233 og kennitalan 571199-3009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×