Erlent

Krefst ekki afsagnar al Malikis forseta

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Íraskur hermaður leiðbeinir sjálfboðaliðum, sem flykkst hafa til liðs við stjórnina undanfarið.
Íraskur hermaður leiðbeinir sjálfboðaliðum, sem flykkst hafa til liðs við stjórnina undanfarið. NordicPhotos/AFP
Barack Obama Bandaríkjaforseti segir Bandaríkin reiðubúin til að senda allt að 300 manns til Íraks. Hlutverk þeirra yrði að gefa íraska hernum ráð í baráttuni við herskáa íslamista, sem hafa náð stórum hluta landsins á sitt vald.

Þetta kom fram á blaðamannfundi í Hvíta húsinu fyrr í kvöld. Obama sagði hins vegar að ekki kæmi til greina að bandarískir hermenn færu að taka þátt í bardögum í Írak. Hann tók jafnframt fram að hann krefðist þess ekki að Núri al Maliki forseti segi af sér, en fullyrt hafði verið í fjölmiðlum að hann setti þetta skilyrði fyrir aðstoð Bandaríkjanna.

Hann orðaði það hins vegar þannig að Bandaríkin myndu starfa með íröskum stjórnvöldum, ef þau taka tillit til allra þjóðernishópa Íraks. Helstu þjóðernishóparnir þar í landi eru þrír: sjía-múslimar, súnní-múslimar og kúrdar. Maliki forsætisráðherra er sjía-múslimi og hefur verið sakaður um að draga taum sinna manna umfram annarra.

Velgengni hinna herskáu íslamista á svæðum súnní-múslima er að hluta rakin til þess að almenningur þar hafi verið orðinn harla ósáttur við Al Maliki, og geti sumir jafnvel frekar sætt sig við að lúta stjórn öfgamanna en al Malikis.

Obama lagði jafnframt áherslu á að mikilvægt væri að fleiri lönd í þessum heimshluta, þar á meðal Íran, létu til sín taka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×