
„Ástæðan fyrir því að farið var út í þennan hólma er sú að okkur hafði borist ábending um að þar væri selshræ þarna í fjörunni,“ segir Ingólfur. „Maður hafði hringt inn fyrr um daginn og taldi sig hafa séð spor við hræið. Það var svo kannað nánar. Eigandinn fór út í hólmann og telur sig kannast við þessi spor. Og stuttu síðar verður hún hans vör þarna úti í hólmanum.“
Þrátt fyrir að eigandinn væri kominn út í hólmann, en þangað hafði Reinhall vaðið upp að mitti náði hún ekki að kalla hann til sín í fyrstu. „Það tók hana langan tíma að sannfæra hundinn um það að í lagi væri að koma úr felum. En það urðu miklir fagnaðarfundir þegar hann áttaði sig á því hver var kominn til að sækja hann,“ segir Ingólfur. Hér getur að líta myndskeið sem tíðindamaður Víkurfrétta náði skömmu eftir að hundurinn fannst.
Enginn undankomuleið var fyrir Hunter þegar út í hólmann var komið og björgunarsveitarfólk og leitarfólk raðaði sér í fjöruna, og hefði hann náðst í fjöruborðinu ef hann hefði flúið. Eigandinn náði hins vegar að róa hundinn.

Hunter slapp úr búri sínu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á föstudaginn. Árni Stefán Árnason lögfræðingur fór fyrir hópi sjálfboðaliða og hann hefur gagnrýnt opinbera aðila, svo sem Matvælastofnun, harðlega og segir leitina af þeirra hálfu hafa verið fumkennda og stjórnlausa.
Samkvæmt Tollgæslu stendur til að senda hundinn út strax í dag eftir að tekið hefur verið úr honum sýni, en strangar reglur gilda um innflutning hunda vegna ýmiskonar smithættu. Árni Stefán segir eigandann ósáttan við hvernig staðið hefur verið að málum af hálfu Icelandair, fyrir það fyrsta að hafa misst hundinn úr greipum sínum og svo með leitina sjálfa. Hún hafði heitið 200 þúsund krónum í fundarlaun. Þau verða ekki greidd út þar sem Reinhall fangaði Hunter sjálf.
Fólk veltir því vitaskuld fyrir sér hvernig það má vera að hundurinn hafi ekki fundist í allan þennan tíma, en Border Collie eru ekki smáhundar, heldur fjárhundar - en það þýðir reyndar að það er talsverð yfirferð á þeim og Ingólfur segir Hunter þannig á lit að hann falli afskaplega vel inn í landslagið og hraunið. Og það sem meira er, leitarsvæðið er miklu umfangsmeira en menn almennt gera sér grein fyrir.
Gagnrýni vísað á bug
Ingólfur gefur ekki mikið fyrir gagnrýni Árna Stefáns. Hann segir að björgunarsveitirnar hafi verið í stöðugu sambandi við Katarinu Reinhall og alltaf þegar ábendingar bárust var hún kölluð til og fengin til að athuga hvort um Hunter gæti verið að ræða. Ingólfur segir þvert á móti að Reinhall vilji koma á framfæri miklum þökkum til leitarfólks alls. Reinhall var í sömu flugvél og Hunter og sá þegar búr hans opnaðist við að falla af færibandi. Hún var því viðstödd leitina allt frá upphafi.

Árni Stefán hefur gagnrýnt harðlega opinbera aðila. Var leitin svona óskipulögð?
„Við viljum ekki meina það. Við höfum reynt allt sem við höfum getað. Samstarf lögreglu og björgunarsveita hefur verið til mikillar fyrirmyndar og við höfum fengið alla þá aðstoð frá matvælastofnun sem við höfum óskað eftir,“ segir Ingólfur.