Erlent

Svíar hafa drepið tugi manna í Afganistan

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Sænskir hermenn á eftirlitsferð í Afganistan.
Sænskir hermenn á eftirlitsferð í Afganistan. Vísir/Guðsteinn Bjarnason
Hermálanefnd sænska þingsins krefst skýringa eftir að sænskur herforingi tjáði sig í fjölmiðlum um fjölda Afgana, sem fallið hafa fyrir hendi sænskra sérsveitarmanna.

Í sunnudagsútgáfu sænska dagblaðsins Dagens Nyheter var haft eftir Urban Mohlin, herforingja í sænska hernum, að tugir andstæðinga hefðu fallið í átökum við sænska sérsveitarmenn í Afganistan.

Þetta hefur vakið nokkuð uppþot í Svíþjóð, ekki síst vegna þess að árum saman hafa sænskir ráðamenn og sænski herinn forðast að nefna nokkrar tölur um það hve mörgum mönnum sænskir hermenn hafi orðið að bana í Afganistan.

Hermálanefndin hefur því ákveðið að kalla Sverker Göranson, æðsta yfirmann sænska hersins, á sinn fund.

Svensk Dagbladet skýrir síðan frá því í dag að talibanar í Afganistan hafi birt opinberlega staðfestingar á því að að minnsta kosti tveir liðsmenn úr þeirra röðum hafi fallið í átökum við sænska hermenn. 

Svíar eru enn með 270 hermenn í Afganistan. Bækistöðvar þeirra eru í borginni Mazar-i-Sharif í norðurhluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×