Erlent

Félagsmálaráðherra Danmerkur segir af sér

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Annette Vilhelmsen (t.v.) ásamt Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra og skattamálaráðherra, Holger K. Nielsen.
Annette Vilhelmsen (t.v.) ásamt Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra og skattamálaráðherra, Holger K. Nielsen.
Sósíalíski þjóðarflokkurinn í Danmörku hefur sagt sig úr ríkisstjórninni. Formaður flokksins og félagsmálaráðherra, Annette Vilhelmsen, hefur einnig sagt af sér að því er danskir miðlar greina frá.

Gríðarleg óánægja er með það innan flokksins að dönsk yfirvöld hafi ákveðið að selja hlut danska ríkisins í olíufélaginu Dong, til fjárfestingabankans Goldman og Sachs.

„Ég hef í dag tekið ákvörðun um að ég býð mig ekki aftur fram til formanns flokksins og að Sósíalíski þjóðarflokkurinn dregur sig út úr stjórninni,” sagði hún á blaðamannafundi í morgun.

„Þetta hefur verið dramatískur sólarhringur. Ég verð að viðurkenna að það var mikill ágreiningur í landsforystunni og þingflokknum. Mér tókst ekki að ná flokknum saman,” sagði hún.

Ríkisstjórnin, sem er minnihlutastjórn, mun þó halda velli því Vilhelmsen sagði Sósíaliska þjóðarflokkinn ætla að verja hana falli.

Eftir sitja í stjórninni Sósíaldemókratar og Róttæki vinstriflokkurinn, sem er flokkur frjálslyndra.

Vilhelmsen viðurkenndi á blaðamannafundinum að flokkur hennar ætti nú í djúpstæðri kreppu, en segist þó ekki sjá eftir því hvernig hún tók á Dong-málinu: „Það hefur lítinn tilgang að sjá eftir nokkru í pólitík. Það geri ég heldur ekki nú.”

Boðað verður til landsþings Sósíalíska vinstriflokksins, þar sem nýr formaður verður kosinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×