Erlent

Taílenskir ráðamenn niðurlægðir

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Auðmjúklega beðið um leyfi.
Auðmjúklega beðið um leyfi. Vísir/AP
Háttsettir embættismenn í Taílandi hafa þurft að fara á fund mótmælenda til þess að biðja sérstaklega um leyfi til að fá að nota skrifstofur sínar. Þeir hafa margir hverjir ekki komist í vinnuna í tvær vikur eftir að mótmælendur lögðu undir sig nokkrar stjórnarbyggingar.

Einn af leiðtogum mótmælenda, munkurinn Luang Pu Buddha Issara, tók á móti þeim, þar sem hann sat við skrifborð, klæddur gulum munkakufli, í allra augsýn.

„Við grátbiðjum um miskunn þína,” sagði Adul Norangsak, aðstoðarlögreglustjóri í Bangkok, og hneigði sig djúpt í virðingarskyni. Þetta þótti töluverð niðurlæging fyrir stjórnvöld, sem boðað hafa til kosninga á sunnudaginn kemur.

Margt hefur setið á hakanum hjá stjórnvöldum þessar tvær vikur, sem aðgangur að skrifstofubyggingum hefur verið lokaður. Meðal annars hefur ekki verið hægt að afgreiða umsóknir um vegabréf, og hafa þær hrannast upp óafgreiddar. Þá þarf að afgreiða gjaldþrotabeiðnir og einn embættismaðurinn vildi ólmur komast í umhverfisgögn.

„Búddha lávarður kenndi eitt sinn að allt eigi sér orsök. Í þetta skiptið er orsökin þessi ríkisstjórn,” var svar munksins, og átti við að ríkisstjórnin sé orsök vandans sem við blasir nú.

Ríkisstjórn Shinglucks Shinawatra komst til valda eftir að hafa unnið glæsilegan kosningasigur fyrir tveimur og hálfu ári.

Mótmælendur krefjast þess að hún láti af völdum, en vilja ekki kosningar enda nokuð öruggt að núverandi stjórn haldi velli. Þess í stað vill stjórnarandstaðan að við taki bráðabirgðastjórn sem fái það hlutverk að breyta stjórnskipan landsins áður en efnt verði til kosninga.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×