Íslenski boltinn

Garðar Örn náði þrekprófinu í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Garðar Örn Hinriksson gat brosað eftir prófið í kvöld.
Garðar Örn Hinriksson gat brosað eftir prófið í kvöld. Vísir/Daníel
Garðar Örn Hinriksson, einn besti dómari Pepsi-deildar karla í knattspyrnu, er búinn að ná þrekprófinu sem hann féll á þegar miðsumars þrekpróf KSÍ fór fram í síðasta mánuði. Magnús Már Jónsson, dómarastjóri knattspyrnusambandsins, staðfesti þetta við Vísi í kvöld.

Garðar Örn tók próf fyrir sumarið sem gilti til 6. ágúst en hann varð að standast þetta próf í kvöld til að fá að halda áfram að dæma í sumar.

Magnús Már sagði að Garðar Örn hafi náð prófinu með glans í kvöld og eru það góðar fréttir fyrir lokasprettinn í Pepsi-deildinni.  

Garðar Örn var ekki sá eini sem tók prófið í kvöld því dómarar sem misstu af prófinu á dögunum fengu að taka sjúkraprófið í kvöld en þar á meðal var Gunnar Jarl Jónsson.

Garðar Örn Hinriksson mun þó ekki dæma leik í 14. umferðinni annað kvöld en þá fara fram fjórir leikir. Það var greinilega raðað á þessa umferð áður en í ljós kom að Garðar Örn hefði staðist sjúkraprófið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×