Íslenski boltinn

„Þurfum bara að dekka í svona leik­at­riðum“

Þorsteinn Hjálmsson skrifar
Ólafur á hliðarlínunni.
Ólafur á hliðarlínunni. Vísir/Anton Brink

„Það er ekki hægt að setja tölur á tilfinningar og það er bara svekkjandi að tapa. Þetta var 0-0 leikur og við bara klikkum á dekkningu undir lokin og Valur refsar,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, eftir grátlegt 1-0 tap gegn Valskonum á Hlíðarenda í 11. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta.

Leikurinn var í miklu jafnvægi mest allan leikinn en Val tókst að skora á 90. mínútu með marki Ragnheiðar Þórunnar Jónsdóttur.

Hvernig fannst Ólafi frammistaða síns liðs í kvöld?

„Mér fannst hún fín, bara góð frammistaða og verðskuldaði meira en að tapa þessum leik 1-0.

Það var möguleiki fyrir okkur að stela þessu. Við fengum skyndisókn þar sem Freyja skallar hann fram hjá og þetta var svona leikur þar sem skyndisókn öðru hvoru megin eða fast leikatriði mundi ráða úrslitum,“ sagði Ólafur.

Aðspurður hvað hann og hans lið gætu tekið út úr þessum leik, þá svaraði Ólafur því á þennan veg.

„Akkúrat núna andskotans ekkert sem við getum tekið jákvætt með okkur úr þessum leik. Við erum búin að spila 11 leiki í deildinni og vera inn í þeim öllum og núna á móti Val og líka bikarleikurinn á laugardaginn, það var ekki 3-0 leikur, skrítið að segja það.

Við þurfum bara að dekka í svona leikatriðum og hætta að missa af. Þetta er held ég þriðji leikurinn sem við hendum frá okkur á lokamínútunum. Jafntefli upp í Árbæ, FH leikur í Kaplakrika og svo þessi hérna.

Það þarf að einbeita sér. Þú ert ekki komin heim í hús fyrr enn dómarinn er búinn að flauta. Það er það sem ég er pirraður yfir og það er það sem við þurfum að taka með okkur og andskotast til að læra af,“ sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×