Innlent

Eldgosið í Holuhrauni ekki í rénun

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gasmengunar gæti orðið vart í dag frá Þistilfirði suður á Austfirði.
Gasmengunar gæti orðið vart í dag frá Þistilfirði suður á Austfirði. Vísir/Auðunn
Eldgosið í Holuhrauni heldur áfram með sama hætti og verið hefur. Engar vísbendingar eru um að gosið sé í rénun né að dregið hafi úr framleiðslu hrauns.

Hraunbreiðan mælist nú rúmir 37 ferkílómetrar og er kvikuflæði á sekúndu milli 250 og 350 rúmmetrar. Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs Almannavarna í morgun.

Sig í Bárðarbungu er einnig stöðugt og heldur áfram með svipuðum hraða og áður. Skjálftavirkni er einnig stöðug en næst stærsti skjálftinn frá því hrinan hófst var í gærmorgun og mældist 5,5 að stærð.

Gasmengunar frá eldgosinu gæti orðið vart frá Þistilfirði og suður á Austfirði. Finni fólk fyrir óþægindum vegna mengunarinnar er því ráðlagt að halda sig innandyra, loka gluggum, auka kyndingu og slökkva á loftræstingu.

Gosmengunarspá Veðurstofu Íslands má finna á heimasíðu stofnunarinnar og leiðbeiningar og tilmæli vegna loftgæða og  mengunar má nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×