Menning

Ágúst og Eva Þyri flytja Sólarsöngva

"Hugmyndin sjálf er ekki flókin: að fylgja sólinni á ferðalagi sínu frá upprás til sólarlags í ljóði og tónum.“
"Hugmyndin sjálf er ekki flókin: að fylgja sólinni á ferðalagi sínu frá upprás til sólarlags í ljóði og tónum.“
Þriðju og síðustu tónleikarnir í tónleikaröðinni Þriðjudagsklassík í Garðabæ að þessu sinni verða í kvöld klukkan 20 í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Þar koma fram hjónin og Garðbæingarnir Ágúst Ólafsson barítónsöngvari og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari.



Tónleikarnir bera yfirskriftina Sólarsöngvar og segir Ágúst að hugmyndin sé búin að vera að gerjast hjá þeim Evu Þyri í um tvö ár. „Hugmyndin sjálf er ekki flókin: að fylgja sólinni á ferðalagi sínu frá upprás til sólarlags í ljóði og tónum frá ýmsum löndum. Þýskur veiðimaður vekur sólina með söngvum sínum, í Finnlandi fær snjókorn loks þá ósk sína uppfyllta að deyja við koss hennar, í Frakklandi horfir maður á sína heittelskuðu, þar sem hún sefur í skugga miðdegissólarinnar og í ljósaskiptunum gerast undarlegir hlutir á hóteli í Dublin sem og á Íslandi, svo eitthvað sé nefnt. Ljóða- og lagalistinn verður sem sagt fjölbreytilegur og skemmtilegur, nokkurs konar bland í poka með mörgum af uppáhaldslögum okkar,“ segir Ágúst.



Tónleikarnir taka um klukkustund, án hlés. Að Þriðjudagsklassík í Garðabæ stendur Menningar- og safnanefnd Garðabæjar en listrænn stjórnandi er Ingibjörg Guðjónsdóttir, söngkona og kórstjóri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×