Menning

Finnst tilganginum með samstarfi náð

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Elín og Margrét gerðu verkið heima á Íslandi út frá ljósmynd sem þær fengu af rýminu.
Elín og Margrét gerðu verkið heima á Íslandi út frá ljósmynd sem þær fengu af rýminu. Mynd/Hulda Sif
„Við fengum beiðni frá safninu Den Frie um að sýna þar og nú er komið að því,“ segir Margrét Bjarnadóttir danshöfundur sem ásamt Elínu Hansdóttur myndlistarmanni opnar sýningu síðdegis í dag í Den Frie í Kaupmannahöfn.



Safnið er gegnt Österport-járnbrautarstöðinni og er að halda upp á 100 ára afmæli sitt á þeim stað. „Þetta er fallegt safn með mjög sérstakan arkítektúr og við unnum verkið sérstaklega inn í rýmið sem við fengum. Þetta er stórt rými, átthyrnt og mjög hátt til lofts,“ lýsir Margrét.



Hún segir verkið unnið úr fjarlægð. „Við gerðum verkið heima á Íslandi útfrá ljósmynd sem við fengum af rýminu. Myndin er semsagt grunnurinn.“



Þær stöllur hafa unnið saman tvívegis áður, í leikhúss- og myndlistarsamhengi. Þessi sýning þeirra samanstendur af myndböndum, ljósmyndum og prentuðu tjaldi að sögn Margrétar.

„Þetta er samstarf alveg frá grunni og þó ég sé danshöfundur og hún myndlistarmaður þá mætumst við á einhverjum skurðpunkti þannig að útkoman er mjög ólík því sem ég hefði gert ein og líka langt frá því sem hún hefði gert ein,“ lýsir hún. „Þá finnst okkur tilganginum með samstarfi náð.“



Sýningin mun standa fram í miðjan apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×