Foreldrahlutverkið er eitt hið ábyrgðarmesta á lífsleiðinni, við þekkum vel hvernig lífið gjörbreytist við tilkomu barns. Garðabær er fjölskyldubær með sterka þjónustu við ungmenni og aðstæður sem skapa öryggi og tækifæri til vaxtar. Að taka þá ákvörðun að setja foreldrahlutverkið í öndvegi er lykilákvörðun til farsældar barna, foreldra og bæjarfélags. Fræðsluyfirvöld, fagaðilar og aðrir sem styðja við börnin og okkur í foreldrahlutverkinu eru í lykilhlutverki.
Skólamál
Skólinn er sú stofnun sem hefur ríkulegust áhrif á sjálfsmynd og vellíðan barna. Öflugir kennarar og umhyggjusamir starfsmenn skólanna eru ómetanlegur fjársjóður sem ríkulega þarf að hlúa að. Tryggjum að skólarnir í Garðabæ séu eftirsóknarverður starfsvettvangur og áfram í fremstu röð skóla.
Forvarnir
Garðabær er nærsamfélag með sterkt öryggisnet. Slíkt samfélag skapar ákjósanleg uppvaxtarskilyrði. Höldum fast í þessi einkenni áfram. Tengsl milli foreldra hafa forvarnagildi og skapa samstöðu t.d. varðandi útivistartíma, netnotkun og virðingu í samskiptum. Tengslanet foreldra styður við mikilvæga þætti eins og að vita ávallt hvar barnið er og leyfa ekki eftirlitslaus partí heldur skapa börnum tækifæri til að hittast í öruggu umhverfi. Veljum samstöðu foreldra og samveru með börnum okkar.
Íþrótta- og tómstundaiðkun
Fjölbreyttar tómstundir, einstaklings- og hópíþróttir og tómstundir sem ekki byggjast á samkeppnisumhverfi þurfa að tengjast skóladegi barna og vera í boði fyrir fólk á öllum aldri. Í bænum okkar leggjum við áherslur á margþætt og hvetjandi tómstundastarf þar sem afreksfólk jafnt sem almennir iðkendur fá notið sín, spornum gegn brotthvarfi úr tómstundum á unglingsárum.
Félagsþjónusta og öryggisnet
Í Garðabæ látum við okkur annt hvert um annað. Félagsþjónustan styður fjölskyldur og einstaklinga í gegnum erfið tímabil, til sjálfshjálpar, til að finna til sín og njóta sín. Ekkert barn á að hverfa frá tómstundastarfi, skólamáltíðum eða öðru sem telst æskilegt í uppvexti vegna fjárhags.
Bæjarbragur
Samkennd, vinátta, nánd og öryggi styður við vellíðan og hamingju. Þessir þættir einkenna Garðabæ og við kjósum að lifa í persónulegu samfélagi með hátt þjónustustig, veljum áfram góðan Garðabæ.