Erlent

Blóðprufa getur spáð fyrir um Alzheimers þrjú ár fram í tímann

Karl Ólafur skrifar
Um það bil 5% úrtakshóps rannsóknarinnar þróuðu með sér sjúkdóminn.
Um það bil 5% úrtakshóps rannsóknarinnar þróuðu með sér sjúkdóminn. Mynd/Getty
Vísindamenn frá Georgetown-háskóla í Washington D.C. hafa þróað nýja blóðprufu sem getur spáð fyrir um upphaf Alzheimers-sjúkdómsins með 96 prósentu nákvæmni þrjú ár fram í tímann. Gizmodo greinir frá þessu.

Þegar eru til próf sem segja til um hvort sjúkdómurinn sé til staðar, en þetta er fyrsta prófið sem getur sagt til um upphaf sjúkdómsins fram í tímann.

Úrtakshópurinn samanstóð af 525 einstaklingum, 70 ára eða eldri, sem sýndu engin merki um andlega veiki. Þau voru látin taka greindarspróf með reglulegu millibili yfir fimm ára tímabil, og á meðan voru blóðsýni tekin úr þeim.

Á þessum fimm árum þróuðu 28 einstaklingar af hinum upprunalegu 525 með sér sjúkdóminn, og það nægði vísindamönnum til þess að bera kennsl á 10 efnasambönd sem gáfu viðurvist sjúkdómsins til kynna.

Vísindamennirnir vinna að því að gera prófið enn næmara, og vonast til þess að það gæti verið notað til að spá fyrir um upphaf sjúkdómsins 10 til 20 ár fram í tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×