Erlent

Farsóttir herja á milljónir barna

Freyr Bjarnason skrifar
Eitt fjölmargra barna sem hafa þurft aðhlynningu á Sýrlandi síðan borgarastyrjöldin braust út fyrir þremur árum.
Eitt fjölmargra barna sem hafa þurft aðhlynningu á Sýrlandi síðan borgarastyrjöldin braust út fyrir þremur árum. Nordicphotos/Getty
Heilbrigðisstarfsfólk í Sýrlandi hefur þurft að taka þátt í óhefðbundnum og sársaukafullum lækningaraðferðum vegna þess hve laskað heilbrigðiskerfið er orðið í landinu.

Farsóttir herja einnig á milljónir barna sem eru óvarin gegn margskonar lífshættulegum sjúkdómum. Þetta kemur fram í nýrri, svartri skýrslu samtakanna Barnaheilla – Save the Children þar sem fjallað er um áhrif borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi undanfarin þrjú ár á heilsu barna.

Skýrslan varpar ljósi á hrun heilbrigðiskerfisins í landinu og afleiðingum þess. Börn deyja ekki einungis af sárum sínum vegna átakanna, heldur einnig vegna sjúkdóma sem áður hefði verið hægt að meðhöndla eða koma í veg fyrir, að því er kemur fram í tilkynningu frá Barnaheillum.

„Börn innan Sýrlands búa við grófar og frumstæðar aðstæður. Að finna lækni með nauðsynleg tæki og lyf fyrir viðeigandi meðferð er nánast óhugsandi. Þær örvæntingafullu aðferðir sem heilbrigðisstarfsfólk neyðist til að grípa til, til að halda lífi í börnum eru sífellt skelfilegri,“ segir Roger Hearn, svæðisstjóri Save the Children.

Helstu áhyggjur í heilbrigðisgeiranum snúa að sjúkdómsfaröldrum á borð við lömunarveiki og mislinga, sem koma sífellt upp upp aftur og geta valdið varanlegum lemstrunum, lömun og jafnvel dauða. Allt að áttatíu þúsund börn eru talin smituð af alvarlegustu tegund lömunarveiki án þess að vita af því og sjúkdómurinn smitast þannig óhindrað áfram.

Tvö hundruð þúsund Sýrlendingar hafa látist af völdum sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir, eins og krabbameini, astma og sykursýki. Þeir sem hafa látist vegna ofbeldisins eru tvöfalt fleiri. Talið er að þúsundir þeirra séu börn. Nú eru sextíu prósent sjúkrahúsa landsins skemmd eða ónýt. Næstum helmingur sýrlenskra lækna hefur flúið land.

Barnaheill krefjast þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki að veita mannúðarsamtökum tafarlausan aðgang inn í landið, og að börn og fjölskyldur þeirra fái aðgang að bólusetningum, mat, vatni, lyfjum og lífsnauðsynlegri aðstoð. „Alþjóðasamfélagið hefur brugðist sýrlenskum börnum, þar sem þau eru slösuð og særð og ófær um að nálgast meðferð,“ segir Roger.

Söfnunarsími Barnaheilla á Íslandi vegna Sýrlands er 904 1900 og 904 2900 (fyrir 1.900 og 2.900 krónur).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×