Innlent

Ómar ósáttur við starfsmenn Tollstjóra sem opnuðu einkabréf

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ómar er ósáttur. Hér má sjá umslagið sem var opnað.
Ómar er ósáttur. Hér má sjá umslagið sem var opnað.
Ómar Ragnarsson er ósáttur við vinnubrögð starfsmanna Tollstjóra, sem opnuðu einkabréf sem hann fékk sent frá vini sínum í Bandaríkjunum í gær. Þegar Ómar fékk bréfið sent heim til sín rak hann strax augun í stóran límmiða sem settur hafði verið á umslagið frá Bandaríkjunum. Á honum stóð:

„Opnað vegna tollaeftirlits“

Ómar vakti athygli á málinu á bloggsíðu sinni og varar þar fólk við að senda sér póst. „Vil bara upplýsa þetta nú svo að þeir, sem senda mér sendibréf frá útlöndum eða eru í póst- eða fjarskiptasambandi við mig, viti um það, því að kannski eru skilaboðin með ofangreindu þessi: Varist að hafa póstsamskipti eða fjarskipta- eða netsamband við þennan mann.“

Skrifin vakið athygli

Bloggfærsla Ómars hefur vakið nokkra athygli í netheimum. Hann hefur einnig fjallað um málið á Facebook-síðu sinni.

„Já, einhverjir segja mér að þetta sé bara viðtekin venja og ég eigi bara ekkert að vera að fjalla um þessi mál. En ég vil bara fá að vita hversu mörg bréf eru opnuð á ári. Ég vil vita hvaða maður það er sem opnar hvert bréf. Ég er bara að reyna að fá einhver svör,“ segir Ómar í samtali við Vísi.

Hann heldur áfram:

„Þetta virðist allt vera voðalegt leyndó. Hvað eru þeir að opna mörg bréf á ári? Eru það þúsund? Tíu þúsund? Eða bara þetta eina bréf? Er fólk yfirleitt að fá upprifin bréf inn um lúguna til sín?“

Þrjú a4 blöð um bíla

Bréfið opnaða, sem Ómari barst í gær, fjallaði eingöngu um bíla. „Þetta voru þrjú a4 blöð frá vini mínum í Bandaríkjunum. Hann var að segja mér frá hvernig bíl hann á og hann vissi hvernig bíl ég á. Hann var að skrifa um þetta. Þetta var voðalega saklaust og ég skil ekki af hverju það er verið að opna þetta bréf sérstaklega,“ segir Ómar sem hefur aldrei lent í þessu áður. Allavega ekki svo hann viti til.

Ómar leggur fram fjölmargar spurningar um málið. „Er þetta gert af handahófi eða er eitthvert úrval? Er þetta frekar gert við bréf frá sumum ríkjum en öðrum? Í Leifsstöð er farangur opnaður að eigandanum viðstöddum. Af hverju er það ekki gert um póst?  Hvaða álit hefur persónuvernd á þessu? Hefur hún vitað um þetta eða hefur hún áhuga á þessu?“

Þrettánda grein reglugerðar

Þrettánda grein reglugerðar um tollmeðferð póstsendinga fjallar um rétt Tollstjóra á því að opna póstsendingar.

„Póststarfsmaður getur, í viðurvist tollvarðar, opnað póstböggla sem koma erlendis frá ef það er til að afla vörureikninga til að byggja á útreikning aðflutningsgjalda, sbr. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 142/1996 um póstþjónustu, en um þagnarskyldu póststarfsmanna fer samkvæmt þeim lögum.

Póstsending sem póststarfsmaður opnar skv. 1. mgr. skal sérstaklega auðkennd þannig að viðtakanda megi vera ljóst að hún hafi verið opnuð til að afla vörureiknings og að það hafi verið gert undir tolleftirliti.

Ef ástæða er til að ætla að aðrar lokaðar póstsendingar innihaldi vörur sem taka skal til tollmeðferðar, skal skora á viðtakendur að opna þær í viðurvist póststarfsmanns eða fá málið tollstjóra til ákvörðunar um málsmeðferð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×