Menning

Vildu bregðast við samfélagsumræðunni

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
MP5 „Við vildum athuga hvort við gætum ekki fundið vinnuaðferð til þess að tala um eitthvað sem brennur á okkur og samfélaginu akkúrat núna,“ segir Tryggvi Gunnarsson.
MP5 „Við vildum athuga hvort við gætum ekki fundið vinnuaðferð til þess að tala um eitthvað sem brennur á okkur og samfélaginu akkúrat núna,“ segir Tryggvi Gunnarsson. Vísir/GVA
„Við erum hérna í geimstöð í framtíðinni þegar fremstu þjóðir heims eru búnar að safna saman rjómanum af vísindasamfélaginu og senda út í geim til að vinna að lausnum á helstu vandamálum jarðarinnar,“ segir Tryggvi Gunnarsson, annar höfunda og leikara leiksýningarinnar MP5 sem frumsýnd verður í Tjarnarbíói á morgun, beðinn að segja í stuttu máli frá verkinu. „Við látum það hins vegar liggja á milli hluta í hvaða ástandi jörðin er enda er það ekki það sem verkið fjallar um.“



Hvað fjallar það þá um? „Verkið fjallar um hvaða áhrif það hefur að vopnvæðast í litlu, afmörkuðu og friðsömu samfélagi,“ segir Tryggvi. „Og eins og nafnið gefur til kynna þá erum við beinlínis að fjalla um byssumálið svokallaða sem allir ættu að kannast við úr fréttum.“

Þannig að þið hafið bara verið að vinna þetta síðustu vikurnar? „Við hérna í Sóma þjóðar, sem að þessu sinni eru aðallega ég og Hilmir Jensson, vildum skoða hversu hratt leikhúsið gæti brugðist við því sem er í samfélagsumræðunni. Leikhúsið er yfirleitt svolítið svifaseint að bregðast við svona málum. Það þarf að sækja um styrki og svo er valið úr umsóknum og það tekur oft alveg heilt ár. Svo tekur annað ár að setja upp sýninguna og þá ertu orðinn tveimur árum of seinn eins og endurspeglaðist best í því þegar leikhúsin fóru að fást við hrunið, það tók alveg tvö, þrjú ár. Mindgroup setti reyndar upp eina sýningu í Borgarleikhúsinu beint ofan í hrun en annars var leikhúsið svolítið seint.

Við vildum athuga hvort við gætum ekki fundið vinnuaðferð til þess að tala um eitthvað sem brennur á okkur og samfélaginu akkúrat núna.



Þannig að við fórum bara út á gólf, engin ritskoðun, og gerðum það sem okkur finnst ofboðslega skemmtilegt og er akkúrat það sem við vildum sjá í leikhúsi þannig að við ákváðum að skrifa, æfa og gera allt samtímis og segja já við öllum hugmyndum. Þannig enduðum við úti í geimi í framtíðinni og ákváðum að vera ekkert að setja neitt í undirtexta heldur bara fjalla beint um málefnið.“



Tryggvi segir þá Hilmi leggja miklu áherslu á það að nota húmor til að koma skilaboðunum áleiðis. „Enda er allt þetta byssumál náttúrulega bara eins og einhver South Park-þáttur,“ segir hann.



„Við höfðum smá áhyggjur af því að við værum orðnir of seinir þegar sagt var frá því að ákveðið hefði verið að skila byssunum, en svo lásum við betur og sáum að þau skil áttu að fara fram „við tækifæri“ og svo segir lögreglan að hún þurfi þessar byssur út af ISIS. Þá varð okkur ljóst að þetta mál væri engan veginn búið og sýningin ennþá relevant.“

Frumsýningin fer fram í Tjarnarbíói annað kvöld klukkan 20 og einungis verða tvær sýningar í viðbót, þann 12. og 15. desember.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×