Menning

Málverkið virðist eiga upp á pallborðið

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Aðalheiður Valgeirsdóttir, myndlistarmaður og listfræðingur.
Aðalheiður Valgeirsdóttir, myndlistarmaður og listfræðingur. Vísir
Samtal um málverk verður í Hafnarborg í Hafnarfirði í kvöld í tengslum við sýninguna Vara-liti sem nú stendur þar yfir.

Ásamt þeim JBK Ransu myndlistarmanni og Birtu Fróðadóttur, sýningarstjóra sýningarinnar, talar þar Aðalheiður Valgeirsdóttir, myndlistarmaður og listfræðingur, sem nýlega hefur skilað af sér veigamikilli ritgerð um málverkið á 21. öldinni.

Om´s friend with chained cat. Verk eftir Þórdísi Aðalsteinsdóttur.
„Málverkið er mjög sýnilegt um þessar mundir og margir eru að fást við það. Ég ætla að fjalla um stöðu þess hjá yngri kynslóð málara,“ byrjar Aðalheiður þegar forvitnast er um innlegg hennar á málþinginu. 

„Ég gerði ritgerð um málverkið á Íslandi á 21. öld, einkum um listamenn sem hófu feril sinn um aldamótin 2000, sem sagt yngstu málarana. Þeir sem eru að sýna í Hafnarborg núna koma flestir þar við sögu, þetta small því allt óvænt saman.“

Aðalheiður segir málverkinu reglulega hafa verið hent út á gaddinn en virðist nú eiga upp á pallborðið í listheiminum.

„Stundum hefur málverkið átt undir högg að sækja gagnvart vídeólist, ljósmyndum og öðrum nýrri miðlum en ungu listamennirnir binda sig ekki endilega við einn miðil og virðast nota málverkið til jafns við aðra. Gera vídeóverk í dag og málverk á morgun.“

Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Hafnarborgar, hefur umsjón með umræðunum sem hefjast klukkan 20.

Hendur og naglaskraut Verk eftir Helga Þórsson á sýningunni Vara-litir sem stendur yfir í Hafnarborg.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×