Menning

Allt um gull í íslenskri náttúru

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Vísir/Valli
„Gullleit hefur verið við lýði á Íslandi allt frá aldamótunum 1900 þegar framfarahugur Íslendinga var sem mestur. Ég ætla aðeins að fjalla um frumkvöðlana,“ byrjar Hjalti Franzson jarðfræðingur þegar forvitnast er um fyrirlestur hans í Hönnunarsafni Íslands á Garðatorgi í kvöld klukkan 20.

„Svo ætla ég að segja frá hvernig gull verður til og lýsa því hvernig leitarsvæðin voru valin.“

Hjalti starfar hjá Íslenskum orkurannsóknum og hefur leitað gulls frá 1989.



„Aðferðafræðin verður sífellt hnitmiðaðri,“ segir hann og kveðst ætla að lýsa niðurstöðum leitarinnar.

„Svo ætla ég að tæpa á hvernig vinnsluferlið er þegar búið er að taka ákvörðun um gullvinnslu.“

Sér hann fyrir sér að það gerist innan tíðar?

„Við erum ekki búin að finna námu, en getum sýnt fram á að gull verður til í íslenska jarðhitakerfinu við sérstakar aðstæður og höfum fundið svæði sem við teljum áhugavert að halda áfram rannsóknum á.“

Hjalti segir Þormóðsdal í Mosfellssveit stað númer eitt hjá gullleitarmönnum nútímans, rétt eins og á dögum Einars Ben.

„En við erum með fleiri svæði sem hafa sýnt góð merki,“ tekur hann fram. Hann segir litlar upplýsingar til um tilraunavinnslu gulls á Íslandi til þessa og engar um hluti unna úr íslensku gulli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×