Innlent

Vigdís Hauks og Pétur fá ekki afsökunarbeiðni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ellen Calmon formaður Öryrkjabandalagsins (ÖBÍ) hafnar því að nýleg auglýsing bandalagsins sé persónulegt áhlaup á þingmennina Pétur Blöndal og Vigdísi Hauksdóttur. Auglýsingin hefur vakið hörð viðbrögð en Ellen telur ekki tilefni til að biðja þingmennina afsökunar.

Pétur tók málið upp á Alþingi í gær og var allt annað en sáttur en í auglýsingunni er spilað myndskeið af fundi sem hann sat og ýjað að því að hann hafi ekki sagt satt á fundinum.

„Það sæmir ekki Öryrkjabandalaginu að nota sér erfiðleika fólks í veikindum, klippa í sundur setningar og nota myndskeið án leyfis til að klekkja af fólki, hafa af því æruna og vega að trúverðugleika þess,“ sagði hann.

Ellen ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hún sagði að þingmennirnir hefðu verið upplýstir um að upptaka væri í gangi og að ekkert hefði verið slitið úr samhengi.  

„Þau eru bæði stjórnmálamenn, Pétur búinn að vera lengur í þessum bransa en Vigdís og vita hver ábyrgð þeirra er. Þau eru kjörin til áhrifa. Þau sögðu þetta og þetta var tekið upp. Þau vissu um upptökuna og það er ekkert óeðlilegt að við höfum eftir þeim og spilum það sem þau hafa sagt,“ sagði Ellen og bætti við að auglýsingin hafi verið lítið sem ekkert unnin.

Þá vísar hún til þess að önnur umræða fjárlaga hafi hafist í dag. Auglýsingarnar séu tímasettar til þess að hafa áhrif á umræðuna um fjárlögin. Bandalagið vonist til þess að ríkisstjórnin standi við kosningaloforð sín.

„Nú hafa þau tækifæri til að standa við þessi orð. Fjárlögin hafa ekki enn verið samþykkt – þetta er enn frumvarp þannig að núna er bara tími til að gera betur,“ sagði Ellen.

Umræddar auglýsingar má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Pétur Blöndal verulega ósáttur við Öryrkjabandalagið

"Það sæmir ekki Öryrkjabandalaginu að nota sér erfiðleika fólks í veikindum, klippa í sundur setningar og nota myndskeið án leyfis til að klekkja af fólki. Hafa af því æruna og vega að trúverðugleika þess,“ sagði hann á þingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×