Erlent

Einræðisherrar Norður-Kóreu sagðir hafa samið barnabækur

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Norður-Kóreu votta líkneskjum af feðgunum Kim Jong-il og Kim Il-song.
Íbúar Norður-Kóreu votta líkneskjum af feðgunum Kim Jong-il og Kim Il-song. Vísir/AFP
Faðir og afi Kim Jong-un, einræðisherra Norður Kóreu, þeir Kim Jong-il og Kim Il-sung, sem sjálfir voru einræðisherrar í Norður Kóreu eru skráðir höfundar barnabóka í landinu, samkvæmt vef Guardian.

Christopher Richardson sem er að rannsaka barnabókmenntir í Norður-Kóreu vegna doktorsnáms við Háskólann í Sydney, segir báða fyrrverandi einræðisherra vera titlaða höfunda barnabóka. Bók Kim Jong-il ber nafnið „Drengir þurrka út ræningja.“ Faðir hans Kim Il-sung mun hafa samið bókina „Fiðrildið og haninn“, sem ber mjög sterk merki þess að vera skrifuð gegn Bandaríkjunum.

Drengir þurrka út ræningja var gefin út 1989 og mun vera byggð á sögu sem Kim Jong-il dreymdi sem barni. Hún fjallar um þorp sem umkringt er óvinum sem líkjast skrímslum. Þorpsbúum tekst þó að sigrast á óvinunum með því að taka höndum saman. Söguhetjan segir í lok bókarinnar að sama hve kröftugir óvinirnir séu, geti þorpsbúar sigrað þá með að sameina styrk sinn og visku og vera hugrökk. „Við skulum byggja þorp okkar sem paradís á jörðu.“

Fiðrildið og haninn  fjallar um hana, sem táknar Bandaríkin, sem níðst á öðrum dýrum. Þar til fiðrildi, sem táknar Norður-Kóreu grípur inn í.

Richardson segir þó að þrátt fyrir að bækurnar séu tileinkaðar feðrunum, sé hann með efasemdir um sannleiksgildi þess. „Jafnvel framleiðendurnir eru tvíræðnir um höfundarétt bókanna. Þeir tileinka sögurnar Kim Il-sung og Kim Jong-il en viðurkenna að þær hafi verið skrifaðar af öðrum,“ sagði Richardson við Guardian.

Hér að neðan má sjá teiknimynd byggða á Fiðrildinu og hananum og á vef Guardian má lesa nánar um meint skrif feðganna.

)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×