Innlent

Óhefðbundnar aðferðir í kjarabaráttu: „Þolinmæðin er bara farin“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stéttarfélög hvetur sitt fólk í óhefðbundnar baráttuaðferðir.
Stéttarfélög hvetur sitt fólk í óhefðbundnar baráttuaðferðir. visir/stefán
Borið hefur á því að stéttarfélög hvetji sitt fólk í nokkuð óhefðbundnar baráttuaðferðir í kjarabaráttu sinni.

Félagsmenn sjö aðildarfélaga innan Bandalags háskólamanna, BHM, barst á dögunum póstur þar sem þeir voru hvattir til að taka þátt í könnun og í framhaldinu af því yrði ákveðið hvaða ráð væru best til að sækja nauðsynlegar leiðréttingar.

Fram kom í póstinum að félagsmenn þyrftu að sýna með ótvíræðum hætti fram á mikilvægi þeirra starfa sem unnin eru af háskólamenntuðum sérfræðingum.

Ljóst væri að laun háskólamanna á Íslandi þyrftu að hækka umtalsvert til að þau teljist samkeppnishæf.

„Þitt stéttarfélag er tilbúið að taka slaginn í komandi kjarasamningum og leitar nú álits hjá þér ágæti félagsmaður. Vonandi sérð þú þér fært að svara eftirfarandi könnun. Hún inniheldur þrjár spurningar og ætti ekki að taka meira en tvær mínútur.“

Þetta kemur fram í bréfinu en spurning númer þrjú hljóðar svona:

Til þess að ná ásættanlegum árangri í kjarasamningum getur þurft að grípa til aðgerða. Ef til þess kemur, hverjar af eftirtöldum aðgerðum telur þú að muni hafa áhrif á þínum vinnustað?

A. – Óvenjulegur fjöldi fyrirspurna í tölvupósti

B. – Að starfsmenn fylgi starfslýsingum nákvæmlega og sniðgangi öll störf sem ekki eru tilgreind þar.

C. Að starfsmenn fylgi vinnutímareglum nákvæmlega og vinni alls ekki utan þess tíma sem þar er tilgreindur.

D. Að starfsmenn taki ekki á sig ábyrgð yfirmanna sinna og beri allar ákvarðanir undir ábyrgðaraðila.

D. Tíðir vinnustaðafundir um kjarasamninga og kjaramál.

E. Annað, hvað?

Hægt er að svara þessari könnun til hádegis 24. janúar.

„Í mínu félagi var haldinn almennur félagsfundur um kjaramál seinnihlutann á síðasta ári og þá fengum við mjög skýr viðbrögð frá okkar félagsmönnum um að við ættum að stofna aðgerðarsjóð og kanna líka hug félagsmann um að fara út í einhverjar aðgerðir,“segir Bragi Skúlason, formaður Fræðagarðs, sem er stærsta stéttarfélagið af þeim sem stóðu fyrir könnuninni.

„Það kom út úr sameiginlegri úttekt vinnumarkaðsins að þeir sem eru í BHM hafa dregist aftur úr frá hruni. Með þessari könnun vildum við skoða hvað grasrótin okkar er tilbúinn að gera til þess að ná fram leiðréttingu.“

„Það er ástæðan fyrir þessari könnun en við erum með henni að hlera okkar félagsmenn um það hversu langt menn eru tilbúnir að fara til að fylgja eftir kröfugerðinni.“

„Ég held að það sé kannski ekki endilega stemmning fyrir verkföllum, en það eru bara til svo margskonar aðrar aðgerðir. Með könnun af þessari tegund erum við að spyrja félagsmenn hvort þeir telji að þessar aðgerðir séu vænlegar til árangurs og hvort þeir séu tilbúnir að taka þátt í þeim.“

„Það er ekki mikil hefð fyrir því að háskólamenntaðir fari í harðar aðgerðir, en það hefur samt sem áður komið fyrir áður. Nú höfum við setið mjög eftir frá hruni og þolinmæðin er bara farinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×