Innlent

Veðjað um næsta útvarpsstjóra

Jakob Bjarnar skrifar
Þessi sex eru mögulegir kandídatar að mati veðmálasérfræðinga Betsson.
Þessi sex eru mögulegir kandídatar að mati veðmálasérfræðinga Betsson.
Veðmálafyrirtækið Betsson hefur sett upp veðmál og geta menn veðjað á hver verður næsti útvarpsstjóri. Sérfræðingar fyrirtækisins meta það sem svo að líklegastur til að verða fyrir valinu, þá er Capacent hefur farið yfir allar umsóknir, að stjórnin velji Magnús Geir Þórðarson sem arftaka Páls Magnússonar. Hann er með stuðulinn 2,25.

Betsson hefur valið sex nöfn úr pottinum, þeirra sem sækja um stöðuna. Næstlíklegastur að mati Betsson er Bjarni Guðmundsson með stuðulinn 2,50. Salvör Nordal er sú þriðja með stuðulinn 3,40 þá kemur Guðjón Petersen með stuðulinn 4, Stefán Jón Hafstein telst ekki líklegur kandídat að mati Betsson-manna en hann er með stuðulinn 6 og lestina rekur Ólína Þorvarðardóttir sem er með stuðulinn 8. Þetta þýðir einfaldlega það að vilji einhver veðja á Ólínu, gerir svo og leggur þúsund krónur undir þá fær sá hinn sami 8 þúsund krónur ef Ólína verður útvarpsstjóri.

Ólína kemst þó á blað sem er meira en hægt er að segja um helftina en 39 sóttu um stöðuna. Ef einhver annar en þeir sem Betsson-menn leggja upp sem mögulega, svo sem Hrafn Gunnlaugsson eða Ólafur Páll Gunnarsson svo handahófskennd dæmi séu nefnd, þá tapa menn sínum veðmálum. Að sögn talsmanna Betsson var þetta ákveðið eftir að veðmálasérfræðingar höfðu ráðfært sig við nokkra álitsgjafa; tvo reynslumikla blaðamenn að sögn sem og þungavigtarmenn úr Sjálfstæðisflokknum. Samkvæmt Betsson lýkur veðmálinu 31.01.2014. Að sögn Ingva Hrafns Óskarssonar, formanns stjórnar RÚV ofh, er stefnt að því að ganga frá ráðningunni fyrir mánaðarmót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×