Erlent

Lögregla handtók Grænfriðungana

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sérsveitarmenn norsku lögreglunnar í aðgerðunum í morgun gegn Greenpeace-mönnum.
Sérsveitarmenn norsku lögreglunnar í aðgerðunum í morgun gegn Greenpeace-mönnum. Mynd/Greenpeace.
Norska lögreglan fór í nótt um borð í borpallinn Transocean Spitsbergen í Barentshafi og batt enda á mótmæli Greenpeace. Síðustu sjö liðsmenn samtakanna voru fjarlægðir af pallinum og fluttir með þyrlu á lögreglustöð í Tromsö í Norður-Noregi. Áður höfðu átta aðgerðarsinnar Greenpeace gefist upp af sjálfsdáðum og þegið boð um þyrluflug til Hammerfest. 

Samkvæmt fréttum norskra fjölmiðla gekk lögregluaðgerðin snurðulaust og án átaka. Sérsveitarmenn lögreglu þurftu að síga niður í böndum til að ná Grænfriðungunum. Norsk stjórnvöld höfðu áður fengið samþykki yfirvalda á Marshall-eyjum til að lögregla mætti fara um borð en þar er borpallurinn skráður. Hann er í eigu Transocean, sem er verktaki hjá Statoil.

Meðlimir Greenpeace héngu í böndum utan á risastórum borpallinum.Mynd/Greenpeace.
Greenpeace segir að öllum hafi nú verið sleppt úr haldi lögreglu án ákæru. Samtökin segjast ekki hætt aðgerðum á svæðinu. Þau segjast ætla að halda skipi sínu, Esperanza, nákvæmlega á fyrirhuguðum borstað til að hindra að Statoil gefi hafið þar boranir. 

Það var á þriðjudag sem fimmtán meðlimir Greenpeace réðust til uppgöngu á borpallinn til að mótmæla olíuleit á norðurslóðum. Þeir hlekkjuðu sig fasta og héngu í böndum utan á pallinum.

Borholurnar þrjár, Apollo, Atlantis og Mercury, merktar inn á hafískort norsku veðurstofunnar. 250-300 kílómetrar eru frá borsvæðunum að ísjaðrinum.
Borsvæðið er um 350 kílómetra norðan við Hammerfest en Statoil áformar að bora þar þrjár holur í sumar, sem verða þær nyrstu til þessa í sögu olíuleitar á heimskautasvæðum. Þær eru engu að síður mjög langt frá hafísjaðrinum. Samkvæmt nýjasta hafískorti norsku veðurstofunnar eru 250-300 kílómetrar frá borsvæðinu að ísjaðrinum.


Tengdar fréttir

Rússar taka hart á

Yfirvöld í Rússlandi hafa nú ákært alla þrjátíu Greenpeace-meðlimina sem handteknir voru um borð í skipi samtakanna, Arctic Sunrise á dögunum.

Noregur leyfir olíuleit á 73 gráðum norður

Olíu- og orkumálaráðuneyti Noregs hefur tilkynnt að næsta útboð sérleyfa til olíuleitar og olíuvinnslu, hið 23. í röðinni, hefjist á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Statoil borar nyrstu brunna Norðurslóða

Tvær holur sem norska ríkisolíufélagið Statoil borar í vor í Barentshafi á svokölluðu Hoop-svæði, um 350 kílómetra norðan Hammerfest, verða nyrstu olíubrunnar á jörðinni til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×