Erlent

Spánverjar bjóða gyðingum ríkisborgararétt

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Sefardískir gyðingar í Ísrael.
Sefardískir gyðingar í Ísrael. Mynd/AP
Spænsk stjórnvöld hafa í hyggju að biðja milljónir gyðinga afsökunar á framferði Spánverja gagnvart forfeðrum þeirra árið 1492, en þá voru gyðingar hraktir úr landi samkvæmt tilskipun Ferdinands þáverandi Spánarkonungs og Ísabellu drottningar hans.

Í sárabætur verður afkomendum hinna brotthröktu boðinn spænskur ríkisborgararéttur. Búist er við að lög um þetta verði sett innan fárra vikna.

Frá gyðingum í Ísrael hafa nú þegar borist hundruð fyrirspurna, en talið er að um helmingur þeirra sex milljóna gyðinga sem búa í Ísrael eigi ættir að rekja til þeirra, sem hraktir voru frá Spáni í lok 15. aldar. Þessi hópur er nefndur Sefardar, en á hebresku þýðir „sefardískur“ svo mikið sem „spænskur“.

Ekki er þó víst að öllum þeirra takist að sýna fram á nægilega skýr tengsl við þann hóp, sem hrakinn var frá Spáni.

„Ég er viss um að það getur orðið skriffinnskumartröð að finna út úr því hver á rétt á þessu og hver ekki,“ segir Malcolm Hoenlein, frammámaður í samtökum bandarískra gyðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×