Lífið

Leikskólakennararnir í Pollapönk sigra

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Flosi hitti Bonnie Tyler á keppninni í fyrra.
Flosi hitti Bonnie Tyler á keppninni í fyrra. Mynd/Einkasafn
Fréttablaðið fékk Eurovision-sérfræðinginn Flosa Jón Ófeigsson, sem kom skemmtilega á óvart í hæfileikakeppninni Ísland Got Talent, til að spá í Eurovision-spilin fyrir úrslitakvöldið sem fer fram í Háskólabíói í kvöld. Flosi byrjar daginn á músíkalskri líkamsrækt.

„Ég kenni Eurovision-Zumba í Reebok Fitness klukkan 11 í dag en það er Eurovision-dagur í líkamsræktarstöðinni. Svo þegar ég er búin að svitna í því næ ég vonandi að fara í sturtu og mæta í fyrirpartí hjá FÁSES, Félagi áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, klukkan 17 á Mímisbar. Þar verður hlustað á nýja jafnt sem gamla Eurovision-slagara og menn spá í spilin. Þangað koma bæði Eurovision-gúrúar og þeir sem hafa gaman að keppninni,“ segir Flosi. Eftir partíið liggur leiðin í Háskólabíó að horfa á úrslitakeppnina.

„Ég fæ að vera baksviðs og taka myndir en síðan ætla ég að njóta þess að horfa á keppnina. Ég mun síðan fagna með þeim sem vinnur, sama hver það verður, og styðja hann úti,“ segir Flosi sem ætlar á sjálfa aðalkeppnina í Kaupamannahöfn í maí. 

Enga fordóma - Pollapönk

„Samkvæmt því sem maður heyrir í samfélaginu og að krakkar kjósi yfirleitt mest er ég ansi hræddur um að Pollapönk sigri þó ég sé ekkert sérstaklega hrifinn af laginu. Ég er svo mikill dívu maður. Ég elska fólk með stóra rödd sem kann að syngja frekar en að dilla rassinum á sviðinu. En Pollapönkararnir eru með fallegan boðskap og eru leikskólakennarar sem er láglaunastétt á Íslandi. Þeir eru í fallegum búningum þannig að það er allt með þeim. Allir krakkar sjá litríka búninga og trommur og biðja foreldra sína um að kjósa þá. Ég er efnis um að algið virki í Köben en ef þeir eru með góðan, enskan texta gæti þetta hugsanlega virkað. Þá gætu allir Íslendingar farið út á keppnina í Henson-galla og hvatt þá til dáða.“

Eftir eitt lag – Greta Mjöll

„Þetta lag tikkar í öll boxin samkvæmt Eurovision-uppskriftinni. Fallegir flytjendur, sætt lag, vel sungið. Greta er er kannski engin dívusöngkona en það á kannski ekki við í þessu lagi. Maður fer að dilla sér við lagið þó þetta sé ekki teknólag. Fyrir mig mundi þetta lag virka best í Köben en á Íslandi virkar Pollapönk best ef litið er til boðskapsins.“

Amor - Ásdís M. Viðarsdóttir

„Þetta lag er öðruvísi. Maður fær það á heilann. Það er einhver Adele og James Bond-fílíngur í því. Ég veit ekki hvort þetta myndi virka í Köben en þetta er öðruvísi.“

Von – Gissur Páll Gissurarson

„Hann er klárlega besti söngvarinn í keppninni. Ég elska Eurovision-klisjur en í þessu lagi eru allar eurovision-klisjurnar sameinaðar. Þá festast gómarnir saman því maður er svo klístraður af sætindum. Hann segir Von mjög oft þannig að maður veit allavega hvað lagið heitir þegar flutningum lýkur. Mér finnst lagið bara ekki nógu gott, það er eiginlega hræðilegt. Ef einhver lélegri söngvari hefði sungið það hefði það ekki komist áfram.“

Lífið kviknar á ný – Sigga Eyrún

„Það byrjar rosalega vel. Þau eru með Eurovision-uppskriftina alveg á hreinu. Þau bjóða uppá hækkun, flott dansatriði og kemmtilega bakraddasöngvara sem sumir eru reynsluboltar. Lagið verður svolítið þreytt þegar líður á og svolítið flatt. Maður verður brjálaður að heyra þetta eftir smá tíma. Þetta lag greip mig fyrst þegar ég hlustaði á öll lögin en þegar ég hlustaði meira á það hugsaði ég að fólk yrði geðveikt á því.“

Þangað til ég dey - F.U.N.K.

„Þetta lag er ofarlega hjá mörgum, allavega unglingsstúlkum. Ég held að þeir muni tapa. Þetta eru sætir súkkulaðistrákar en þegar þeir reyna að dansa er það hallærislegt. Lagið grípur mig ekki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×