Menning

Hugmyndirnar bak við innsigli ábótanna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Guðrún Harðardóttir "Til að sjá íslensku innsiglin í skýrara ljósi er nauðsynlegt að skoða bakgrunn þeirra,“ segir Guðrún sem er sérfræðingur við Þjóðminjasafn Íslands.
Guðrún Harðardóttir "Til að sjá íslensku innsiglin í skýrara ljósi er nauðsynlegt að skoða bakgrunn þeirra,“ segir Guðrún sem er sérfræðingur við Þjóðminjasafn Íslands.

„Ég er að fjalla um myndefnið í innsiglum kirkjunnar manna sem aðgengileg eru í bókinni Sigilla Islandica.

Áherslan er á að skoða innsigli ábóta Benediktsklaustranna og kapítulainnsiglin en það eru innsigli klaustursamfélaganna,“ segir Guðrún Harðardóttir sem heldur fyrirlestur í Árnagarði í dag klukkan 16.30 sem hún nefnir Hvað segja innsiglin? Þar kveðst hún skoða hvort myndirnar birti almennar hefðir viðkomandi klausturreglu eða hvort um einhver séríslensk afbrigði sé að ræða. Guðrún segir að áhugaverðir þættir hafi komið í ljós við athugun á því.

Erindi Guðrúnar er liður í röð fyrirlestra sem Miðaldastofa gengst fyrir í vetur um klausturmenningu á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum en á Íslandi störfuðu níu klaustur fyrir siðaskipti.

En hvað eru innsigli? „Jú, innsiglin voru staðfestingartákn sem undirskriftir tóku síðar við af við skjalagerð. Á fornbréfum á skinni voru ekki undirskriftir manna heldur voru innsigli úr vaxi hengd við bréfin með innsiglisreimum. Á þeim var mynd eða tákn með texta umhverfis en myndin var á einhvern hátt táknræn fyrir innsigliseigandann,“ útskýrir Guðrún.

„Til að sjá íslensku innsiglin í skýrara ljósi er nauðsynlegt að skoða bakgrunn þeirra og hvort þau séu lík eða ólík því sem tíðkaðist innan hinnar alþjóðlegu miðaldakirkju, einkum innan Niðarósserkibiskupsdæmis,“ segir hún enn fremur.

Spurð hvort hún telji innsiglin hafa verið unnin hér á landi eða erlendis verst hún allra frétta en segir stríðnislega: „Það er eitt af því sem ég velti fyrir mér í þessum fyrirlestri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×