Erlent

Morsi reiður við upphaf réttarhalda

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Mohammed Morsi sást í gær í annað sinn opinberlega frá því hann var hnepptur í fangelsi síðastliðið haust.
Mohammed Morsi sást í gær í annað sinn opinberlega frá því hann var hnepptur í fangelsi síðastliðið haust. Vísir/AP
„Hver ert þú? Segðu mér,“ hrópaði Mohammed Morsi, fyrrverandi forseti Egyptalands, að dómaranum í réttarhöldum sem hófust í gær.

Morsi sat þar á bak við rimla í rammgirtu glerbúri, harla ósáttur við sinn hlut og mótmælti hástöfum að þurfa að vera geymdur í sérstöku búri, aðskilinn frá meðsakborningum sínum.

„Gerirðu þér grein fyrir því hvar ég er staddur?“ spurði Morsi dómarann enn fremur, en Sjabaan el Sjami dómari svaraði að bragði: „Ég er yfirmaður sakamáladómstóls Egyptalands.“

Réttarhöldin snúast um flótta Morsis og fleiri liðsmanna Bræðralags múslima úr fangelsi árið 2011, þegar uppreisnin gegn Hosni Mubarak, þáverandi forseta, stóð sem hæst. Auk Morsis er réttað yfir 130 öðrum í þessu máli, þar á meðal nokkrum helstu leiðtogum Bræðralags múslima.

Nokkrir fangaverðir létu lífið þegar hópurinn braust út úr fangelsinu, en Morsi er sakaður um að hafa skipulagt flóttann og morð á fangavörðunum.

Morsi var kosinn forseti í fyrstu lýðræðislegu kosningunum í Egyptalandi, eftir að Mubarak hafði verið steypt af stóli. Herinn í Egyptalandi steypti hins vegar Morsi af stóli síðastliðið sumar og hneppti hann í fangelsi, þar sem hann hefur setið síðan og beðið réttarhalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×