Erlent

Blóðfrumum breytt í stofnfrumur

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Stofnfrumur teknar úr frysti - þessar voru fengnar með gamla laginu.
Stofnfrumur teknar úr frysti - þessar voru fengnar með gamla laginu. Nordicphotos/AFP
Vísindamenn í Japan hafa fundið harla einfalda leið til þess að breyta blóðfrumum í stofnfrumur.

Ekki þurfi annað en að setja blóðfrumurnar í sýrubað, en að vísu samkvæmt tilteknum kúnstarinnar reglum. Vísindamennirnir, með Haruko Obokata fremsta í flokki, skýra frá tilraunum sínum í nýjasta hefti vísindatímaritsins Nature.

Í viðtali við BBC segist hún hafa orðið undrandi á því að frumurnar gætu brugðist með þessum hætti við umhverfinu: „Það er spennandi að hugsa sér þá nýju möguleika sem þessar niðurstöður færa okkur, ekki aðeins til lækninga með enduruppbyggingu heldur einnig varðandi krabbamein,“ hefur BBC eftir henni.

Stofnfrumur hafa þann kost að þær geta breyst í aðrar tegundir af frumum, og því er hægt að nota þær meðal annars til að búa til líffæri og byggja upp líkamsvef af ýmsu tagi.

Framan af var einungis hægt að fá stofnfrumur úr fósturvísum, en á síðustu árum einnig með flóknum breytingum á erfðaefni þeirra.

Þessi nýja aðferð fannst með tilraunum á frumum úr músum, en rannsóknir eru hafnar á því hvort þetta verði einnig hægt að gera með frumur úr mönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×