Erlent

ESB vill herða á réttindum flugfarþega

Þorgils Jónsson skrifar
Ef nýjar ESB-reglur um réttindi flugfarþega verða samþykktar mun það auka verulega á réttindi flugfarþega.
Ef nýjar ESB-reglur um réttindi flugfarþega verða samþykktar mun það auka verulega á réttindi flugfarþega. NordicPhotos/AFP
Staða flugfarþega gagnvart flugfélögum mun batna umtalsvert ef reglur sem eru nú í bígerð verða að veruleika.

Evrópuþingið samþykkti á miðvikudag uppkast að reglugerð sem herðir nokkuð á frumvarpi Framkvæmdastjórnar ESB.

Reglurnar bíða enn samþykkis aðildarríkjanna í ráðherraráðinu, en í núverandi mynd kveða reglurnar á um að ef tafir verða á brottför þurfi flugfélög að greiða farþegum skaðabætur, allt að 600 evrum sem jafngilda um 95.000 íslenskum krónum.

Auk þess kalla regludrögin eftir því að reglur félaganna um handfarangur verði rýmkaðar og að kvörtunarkerfi flugfélaganna og upplýsingagjöf verði hvort tveggja eflt.

Þá eru þar ákvæði um að uppgefið miðaverð endurspegli raunverð að meðtöldum mögulega duldum kostnaði, til dæmis greiðslukortagjaldi og sérstökum greiðslum fyrir farangur í farangursrými.

„Þetta er núna eins og Davíð og Golíat, þar sem einungis tvö prósent farþega sem leggja inn kvörtun gegn flugfélögum bera eitthvað úr býtum,“ sagði Georges Bach, sem var frummælandi Evrópuþingsins í málinu, í samtali við vefinn EUobserver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×