Erlent

800 þúsund ára mannaspor fundust á Englandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Fótsporin fornu við austurströnd Englands.
Fótsporin fornu við austurströnd Englands. Vísir/AP
Ævaforn fótspor eftir menn hafa fundist við ströndina hjá bænum Happisburgh í Norfolk á austanverðu Englandi. Vísindamenn telja sporin vera að minnsta kosti 800 þúsund ára gömul. Þar með eru þetta elstu mannaspor sem fundist hafa utan Afríku.

Fornleifafræðingurinn Chris Stringer, sem hefur tekið þátt í fornleifarannsóknum á staðnum, segir að fyrir átta til níu hundruð þúsund árum hafi Bretland verið á mörkum hins byggða heims. Lítið sé vitað um það fólk sem þá hafðist við þar, og hvernig það tókst á við kuldann sem þá var töluvert meiri á þessum slóðum en nú er.

Til þessa hafa menn ekki talið mögulegt að mannabyggð hafi verið í Bretlandi fyrir meira en 700 þúsund árum, því fyrir það var kuldinn þar svipaður og nú í Skandinavíu.

„Hugsanlega höfðu þau lagað sig menningarlega að kuldanum með aðferðum sem við höfum ekki talið hafa verið mögulegar fyrir 900 þúsund árum. Voru þau í fötum? Gerðu þau sér húsaskjól, skjólgarða og svo framvegis? Er mögulegt að þau hafi notað eld fyrir þetta löngum tíma?“ spyr Stringer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×