Erlent

Grafinn lifandi upp á grín

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Áfengi hellt upp í hinn "látna“.
Áfengi hellt upp í hinn "látna“. Vísir/AP
Í vikunni var maður að nafni Pachencho grafinn lifandi í þorpinu Santiago de las Vegas á Kúbu. Réttu nafni heitir hann reyndar Divaldo Aguiar, og er sprelllifandi.

Engin jarðarfararstemning ríkti heldur í útförinni, frekar partístemning enda áfengi með í för og teygað stórum.

„Hann var svo góður maður,“ hrópaði Carmen Zamora, og bar slæðu sína upp að augunum eins og hún væri að gráta. „Hann skilur mig eftir aleina. Ég vil ekki grafa hann niður í jörðina. Guð minn, nei.“

Allt var þetta í gríni gert, en samt af innlifun mikilli því þrjátíu ára hefð hefur nú myndast fyrir því að þorpsbúar velji sér nýjan Pachencho til að grafa.

„Ég missi aldrei af þessari veislu. Ég segi vinnuveitandanum frá þessu og tek mér frí í einn dag,“ segir Rebeca Morera, fimmtug kona sem þóttist vera ekkja hins „látna“ og dillaði sér dátt í takt við fjöruga tónlist sem fjögurra manna hljómsveit lék. „Þetta er hefð í þorpinu sem ég er fædd og uppalin í. Við megum ekki sleppa þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×