Erlent

Tveir rútubílstjórar fórust í Noregi

Freyr Bjarnason skrifar
Mikil hálka var á veginum þegar slysið varð í Sokna í Noregi. Lögreglu- og sjúkrabílar voru fljótir á vettvang.
Mikil hálka var á veginum þegar slysið varð í Sokna í Noregi. Lögreglu- og sjúkrabílar voru fljótir á vettvang. Mynd/VG
Þrír fórust í Sokna í Noregi þegar flutningabíll með sextugan Íslending við stýrið ók á rútu með níu manns um borð.

Rútubílstjórinn, sem var 51 árs, lést ásamt tveimur farþegum. Annar þeirra var sextán ára stúlka en hinn 69 ára karlmaður sem starfaði einnig sem rútubílstjóri. Tveir farþegar rútunnar til viðbótar liggja alvarlega slasaðir á Ullevål-sjúkrahúsinu í Ósló eftir að hafa verið fluttir þangað með þyrlu.

Flutningabíllinn var á leið frá Bergen til Óslóar. Slysið varð  þegar ökumaðurinn bílsins missti stjórn á honum og fór yfir á öfugan vegarhelming. Bíllinn stóð skáhalt á veginum og klessti rútan, sem var á leið frá Osló, á hann.

„Þetta er hræðilega sorglegt fyrir fjölskyldur fórnarlambanna en einnig fyrir okkur kollegana,“ sagði Per Steinar Sviggum, forstjóri rútufyrirtækisins Sogn Billag/Netbuss, eiganda rútunnar sem lenti í slysinu í viðtali við VG. Sviggum fundaði í gær með rútubílstjórunum sem starfa hjá fyrirtækinu til að ræða við þá um slysið. Báðir rútubílstjórarnir voru mjög reyndir í fagi sínu.

Annar flutningabíll á leið frá Ósló til Førde , einnig með Íslending við stýrið, skall á flutningabílnum skömmu síðar. „Það var gríðarlega mikil hálka og ég reyndi hvað ég gat til að hægja á bifreiðinni, en allt kom fyrir ekki,“ sagði ökumaðurinn Guðjón Guðmundsson, 33 ára, í samtali við NRK. Hann sat fastur í bílnum í stutta stund áður en lögreglan kom á vettvang.

Glerhált var á veginum þar sem slysið varð. Fyrr um kvöldið þótti ekki ástæða til að salta vegarkaflann þar sem slysið varð eða setja á hann sand, að því er kom fram á vefsíðu NRK. Eftir að ástand vegarins hafði verið metið byrjaði að rigna á svæðinu og myndaðist mikil ísing eftir að hratt hafði kólnað. Gríðarleg hálka myndaðist því á veginum.

Ökumaður flutningabílsins sem ók á rútuna var hvorki undir áhrifum áfengis né vímuefna. Flutningabíllinn var jafnframt á góðum vetrardekkjum, samkvæmt norskum fjölmiðlum. Grunur leikur á að bílstjórinn hafi ekið gáleysislega. „Skýrsla var tekin af manninum, ökuskírteini hans tekið en hann er ekki í varðhaldi,“ sagði Arne Erik Hakonsen, lögreglumaður í Ringeríki í Noregi, í viðtali við Vísi um stöðu Íslendingsins.

Tímalína:

23.50 Flutningabíll sem ekur eftir þjóðvegi 7 ekur á rútu með níu manns um borð.

23.51 Annar flutningabíll skellur á hinum flutningabílnum og rútunni.

23.56 Norsku lögreglunni er tilkynnt um slysið.

00.11 Lögreglu- og sjúkrabílar koma á vettvang.

04.30 Hinum látnu er náð í burtu úr flaki rútunnar.

05.45 Yfirheyrslum lýkur yfir ökumanni fyrri flutningabílsins sem ók á rútuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×