Innlent

Voru ekki með umsamda tryggingu fyrir flugmenn er sjúkraflugvél fórst

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Frá brotlendingunni í Hlíðarfjalli 5. ágúst 2013.
Frá brotlendingunni í Hlíðarfjalli 5. ágúst 2013.
Þegar sjúkraflugvél Mýflugs brotlenti á Akureyri í ágúst síðastliðnum var félagið ekki með gildar tryggingar fyrir flugmenn sína í samræmi við kjarasamning við Félag íslenskra atvinnuflugmanna. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

„Varaformaður og framkvæmdastjóri FÍA hafa átt nokkur símtöl við stjórnarformann Mýflugs í dag vegna gruns um að alvarlegur ágalli hafi verið, og sé hugsanlega enn á tryggingamálum félagsins,“ segir í tölvupósti sem Sindri Sveinsson, framkvæmdastjóri FÍA, sendi flugmönnum Mýflugs í haust sem leið, nokkru eftir slysið í Hlíðarfjalli.

Sindri Sveinsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Tryggingar í lagi eins og er

Í slysinu fórust flugmaður og sjúkraflutningamaður. Annar flugmaður sem lifði hefur enn ekki tekið upp störf. Samkvæmt kjarasamningnum hefði Mýflug átt að kaupa tryggingar fyrir flugmennina sem tækju bæði til andláts og hugsanlegs missis á flugmannsréttindum vegna afleiðinga slyss. Um er að ræða upphæðir sem hlaupa á tugum milljóna króna.

Hvorki Sindri Sveinsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), né Hafsteinn Pálsson, formaður félagsins vilja staðfesta að tryggingar Mýflugs á slysdaginn hafi ekki verið samkvæmt kjarasamningi við félag þeirra.

„Við ætlum ekki að tjá okkur um það. Ég veit alla vega að allar tryggingar hjá þeim eru í lagi eins og er,“ segir Sindri Sveinsson.

Hafsteinn Pálsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.
Ekki taktískt að gefa upplýsingar

„Eins og þú getur rétt ímyndað þér þá get ég ekki gefið þér neinar upplýsingar um það. Það væri ekki taktískt mjög flott hjá mér að gefa eitthvað út í blöðin ef það væri einhvern veginn öðruvísi en það ætti að vera - eða í lagi, eða hvernig sem það er,“ segir formaður FÍA.

„Það er rangt,“ svaraði Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, er hann var spurður hvort rétt væri að félagið hefði ekki verið með tryggingar í samræmi við samninginn við FÍA.

Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs.Stöð 2/Baldur
Telur umfjöllun langt yfir strikið

Óljóst er um stöðu bótauppgjörs vegna flugmannsins sem lést. Ein heimild segir niðurstöðu komna í málið en önnur að næsta skref verði ákveðið þegar ljóst verði hvort eitthvað, og þá hversu mikið, fáist úr annarri launaþegatryggingu sem Mýflug hafi verið með. Sú upphæð verði þó ekki nálægt þeirri fjárhæð sem líftryggingin sem vantaði hefði gefið.

„Nei, ég vil það ekki,“ ítrekar formaður FÍA er hann er spurður hvort hann vilji ekki upplýsa stöðu bótamálsins. „Mér finnst hins vegar þessi umfjöllun ykkar á köflum hafa farið langt yfir strikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×